samviskubitið eilífa

konan þáist af krónísku samviskubiti:

að vera með þunglyndi,

að vera kvíðin,

að vera of feit,

að borða of mikið,

að vera ekki nógu dugleg,

að vera erfið  og slæm móðir

að vera ekki nógu góð eiginkona,

að sinna mömmu sinni ekki nógu vel,

að sinna ömmu sinni ekki nógu vel,

að hringja ekki í allar frænkurnar,

að halda ekki nógu miklu sambandi við vinina,

að nenna ekki að þrífa bílinn,

að vera með vefjagigt

að vera ekki nógu skilningsrík

að vera of ákveðin

að vera ekki nógu ákveðin 

að segja nei

að segja ekki nei 

að þurfa á verkjalyfjum að halda

að þurfa á geðlyfjum að halda

að hreyfa sig ekki nóg 

að vera ekki nógu fagleg

að gefa of mikið af sér

að gefa ekki nógu mikið af sér

að segja já

að segja ekki já 

Þetta er allt sem hún hefur samviskubit yfir svona í núinu en hún hefur sko miklu meira samviskubit yfir fortíðinni:

að hafa drukkið of mikið áfengi,

að hafa sofið hjá of mörgum strákum,

að hafa logið einhvern tíman að einhverjum,

að hafa sagt eitthvað misgáfulegt,

að hafa ekki  valið alltaf réttu leiðina

að hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi

Oftast nær er samviskubit vita gagnlaust og gerir engum gott, en samviskubit getur nagað sálina í tugi ára þannig að úr blæðir. Samviskubit dregur mikið úr lífsgæðum og lífshamingju fólks og það væri óskandi að það væri hægt að fara í samviskubitsafnám, þá yrði lífið svo miklu einfaldara fyrir alla. Konan ákvað að setja saman þennan pistil þó að hún sé með samviskubit yfir því og ef til vill losnar eitthvað um samviskubitslista hennar.


Uppgötvanirnar augljósu

Þú ert  löt, feit, ljót, ömurlegur fagmaður, lygari og aumingi og átt aldrei eftir að vera nokkuð annað! 

Þetta eru hugsanirnar sem hafa flætt óhindraðar í gegnum huga konunnar undanfarna daga! Hversu miklum árangri nær nokkur manneskja sem þarf að búa við slíkt niðurrif?  

Konan hefur alltaf haft samúð með þeim sem hafa þurft að búa við ofbeldi, hvort sem það er andlegt eða líkamlegt og að slíkt eigi ekki að eiga sér stað. En hvað um það ofbeldi sem hún beitir sjálfa sig hvað eftir annað? Á konan það skilið?

Það á enginn skilið að það sé komið svona fram við  hann og konan ekki heldur, þetta eru kannski augljósar uppgötvanir en geta verið svo leyndar að konan áttar sig ekki á því ofbeldi sem í þessum hugsunum felst. Konan er orðin svo lagin við að fela þær fyrir sjálfri sér að hún áttar sig ekki á því að hún hefur eitthvað um málið að segja.

Núna er lag að segja stopp, hingað og ekki lengra! Hér með hættir konan að taka mark á þessum hugsunum. Þetta er frekar einfalt að skrifa á blað og ákveða hér með að hætta en að venja hugann af því að gera þetta getur verið þrautin þyngri.

En orð eru til alls fyrst og það að gera sér grein fyrir því að hlutirnir eru svona er töluvert skref og síðan er að stíga það næsta og verða meðvitaður um að hætta þessum hugsunum. Austurríska leiðin virkar víst ekki í þessu tilfelli því að hugurinn fylgir konunni nema hægt sé að fá nálgunarbann á þessar hugsanir, konan er viss um að umsókn um slíkt yrði samþykkt en framkvæmdin væri erfiðari, allar tillögur vel þegnar.

Konan er orðin meðvituð um það hversu mikill áhrifavaldur ofbeldishugsanirnar eru á hennar líf og ætlar sér að útrýma þeim. Aðferðin verður væntanlega misjöfn eftir því hvaða hugsanir eiga í hlut en eitt er víst að konan getur, ætlar og skal.


Viðhorf

Alltaf er konan að gera nýjar og stundum augljósar uppgötvanir. 

Konan fór í frí í rúma viku og lá í sólbaði megnið af tímanum, að fara í sólbað hefði verið konunni ofviða fyrir nokkrum árum. Hún fylgdist með mannlífinu í kringum sig og uppgötvaði að það var enginn neitt að spá í hvernig konan var í laginu, að hún væri eins og albínói, heldur bara að hugsa um sitt og sjálfsagt stór hluti þeirra í svipuðum þankagangi og konan. En hvað með það þó að fólk horfi á hana, kannski hugsar fólkið að konan sé hugrökk að vera í sólbaði þrátt fyrir að líta út eins og strandaður Mjaldur, so what!

Konunni hefur alltaf þótt erfitt að fara í gegnum vopnaleit vegna allrar athyglinnar sem HÚN fær (aha og enginn annar ;) ) Konan breytti hugarfari sínu um nokkrar gráður og hugsaði sem svo að hún liti ekki út eins og glæpamaður, hvernig sem þeirra staðalímynd er, að hún væri ekki að smygla neinu og líklega slyppi hún við líkamsleit þar sem hún er eins og strandaður mjaldur ( held að það sé ekki til nein vinnulýsing á líkamsleit á strönduðum Mjöldum). Bara það að brosa og vera afslappaður og hugsa um að þetta fólk sé bara að vinna vinnuna sína og hafi enga löngun til þess að pynta saklausa Mjalda.

 Það er alltaf gaman að fara í ferðalög en konunni finnst líka alltaf gott og gaman að koma heim og knúsa fólkið sitt (Bangsi meðtalinn).

Núna hefst rútínan að nýju og konan hlakkar til að takast á við verkefnin sem framundan eru og fara í spriklið sitt að nýju.


Kvíðinn..........

Nú er konan gagntekin af kvíða, sem er dáldið fyndið miðað við fyrri blogg hennar. Þetta er gríðarlega óþægilegt og konan tekur eftir því hversu mikla hnekki sjálfsálitið hennar fær. Hún er ömurleg eiginkona, móðir, starfskraftur og vegna þess að hún slátraði heilu súkkulaðistykki og lakkríspoka með hefur hún enga sjálfsstjórn og lífstíllinn er komin í rusl vegna þess.

EN er það svo? Hefur eitthvað breyst síðan á mánudaginn? Er konan kannski andsetin af kvíðapúkanum og á aldrei aldrei eftir að ná sér aftur? Nei, þetta er tímabil sem líður hjá, konan verður að hugsa að hlutirnir verði betri á morgun, ennþá betri hinn og þannig áfram. Lífið hennar snýst ekki um kvíðann, heldur að horfa framhjá honum og hunsa hann svo að hann minnki eins og púkinn á fjósbitanum í denn.

Málið er að standa upp aftur og halda áfram þar sem frá var horfið, borða holla matinn, fara í hreyfinguna og almennt að koma sér áfram. Þegar konan skrifar þetta situr púkinn á öxl hennar og bölsótast yfir hverju jákvæði orði; þú átt aldrei eftir að vera laus við kvíðann, hvaða hroki er þetta í þér, þú ert búin að eyðileggja lífstílsbreytinguna þína og þú gerir ekkert gagn og til hvers ertu að reyna þetta eiginlega? Einhverstaðar í kolli konunnar er lítil rödd sem hvíslar í fyrstu en hækkar róminn; þú hefur sigrast á verra og þú munt sigrast á þessu einnig. Því að konan er sterk og lætur þetta ekki breyta neinu. Því að hún er sama manneskjan og áður


Gleðilegt ár!

 

 Árið 2014 er hafið og hugsar konan til liðins árs og minnist þess hversu lánsöm hún er, allt hefur gengið henni í hag og allt orðið á hinn besta veg. En það skiptast á skin og skúrir eins og gengur en í stað þess að velta sér upp úr því sem hefur verið "skúramegin" velur konan að læra af skúrunum og ylja sér við það sem hefur komið konunni til að skína. Í rauninni er allt val, maður getur valið að finnast lífið erfitt og vont eða maður getur reynt að gera það besta úr aðstæðunum hverju sinni. Þetta er auðvelt að segja fyrir konu sem hefur allt, hugsa sumir. Konan hefur fengið sinn skerf af erfiðleikum og þetta er það sem stendur eftir, hún hefur getað valið að vera óhamingjusöm, finnast aðrir hafa það miklu betra og gleðjast ekki yfir láni annarra einstaklinga. EN hvaða líf er það? Það er  hægt að velja það að vera hamingjusamur, að gleðjast yfir velgengni annarra, að ákveða að lifa lífinu lifandi. Að vera í samvistum við fjölskylduna, vinina, samstarfsfólkið hefur gefið konunni dýrmætustu stundirnar á liðnu ár en ekki að fara til útlanda, fara í leikhús eða hvað sem er, það væri ansi innantómt ef að konan hefði ekki fólkið sitt til að njóta þess.

Konan óskar þess að hún beri gæfu til að lifa lífinu í faðmi fjölskyldunnar, njóta samvista með öllu því frábæra fólki sem hún hefur kynnst  í gegnum árin og geti haldið áfram að skipta máli í starfi sínu. Og síðast en ekki síst að hún geti tekist á við þær áskoranir sem að lífið færir henni með styrk og elju og sigrast á hindrunum sem á vegi hennar verða.

Gleðilegt ár kæru vinir 


Jólin..........

Konan er mjög hugsi þessa dagana, hún hittir margt fólk í starfi sínu sem á um sárt að binda. Þessir einstaklingar bera ekki í brjósti sér tilhlökkun fyrir komandi hátíð, heldur kvíða þeir jólunum. Ástæða þess geta verið margar, sumir hafa ekki efni á að halda jól, aðrir eru einir og enn aðrir ef til vill inni á stofnun vegna aðstæðna þeirra. Konan hefur verið hugsi yfir þessum aðstæðum sem fólki er þröngvað í og að sumu leyti skammast sín fyrir það hversu aðstæður hennar eru góðar. En þær hafa ekki alltaf verið góðar, sum jól hafa verið erfið, nýja árið ekki gefið fyrirheit um betri tíð og lánið ekki leikið við hana eins og það gerir í dag. Konan hefur tekið ákvörðun um að njóta þess sem hún hefur ekki síst vegna þess að hún á það sannarlega skilið. En það þýðir samt sem áður ekki að hún geti sett sig í spor þeirra sem ertu ekki jafn lánsamir og hún, ef hún fengi að ráða myndi nýjársóskin hennar vera sú að allir gætu fengið það sem þeir óskuðu sér helst. Eitt sinn snérust jólin um það að geta gefið fólkinu sínu góðar og fallegar gjafir og helst það sem hver óskaði sér en jólin snúast í dag að vera þakklát fyrir þau forréttindi að njóta þeirra í faðmi fjölskyldunnar, því að það er ekki sjálfgefið. Á þessum tíma vakna upp minningarnar um þá sem hafa horfið á braut og konunni finnst þeir aldrei jafnnærri og á þessum tíma. Það er góð tilhugsun. Og konan fer inn í jólahátíðina og nýja árið full af bjartsýni og gleði ásamt tilfinningu sem hún kann eiginlega ekki að lýsa nema að því leyti að henni finnst allt í réttum skorðum og hún geti ekki verið hamingjusamari.

Gleðileg jól og heillaríkt komandi ár. 


að þóknast öðrum

Konan hefur um árabil sóst eftir velþóknun og hrósi annarra, verið hrædd um álit annarra á henni og yfirleitt talið að öðrum hefur þótt konan ekki mjög merkileg! 

Ef að fólki líkar hún ekki eins og hún er þá er það þeirra missir! Því að konan er hætt! Hún er hætt að þóknast fólki og eltast  við það ef að hún passar ekki inn í formin sem henni eru ætluð. Konan er í fyrsta sinn á ævinni ánægð með að vera eins og hún er. Og hún ætlar að njóta þess, með því að vera í samvistum við einstaklinga sem meta hana eins og hún er en ekki eins og hún ætti að vera. Auðvitað er konan ekki fullkomin, það er það enginn. En konan er fullkomlega hamingjusöm með sjálfa sig eins og hún er í dag. Þetta hefur kostað tugi ára af vanlíðan og erfiðleikum því að það er vont að eltast við einhverja ímynd sem ekki er hægt að ná og verða sífellt fyrir vonbrigðum með sjálfan sig. 

Konan hefur ákveðið að verða ekki eins og einhver annar eða besta útgáfan af einhverjum öðrum heldur að verða besta útgáfan af sjáfri sér. Og eitt af því er að geta hrósað sjálfum sér og viðurkenna að það er EKKI dauðasök! 

Ef að konan  er ánægð með sjálfa sig, þá er hún ekki montin, sjálfsumglöð eða hrokafull heldur er það vegna þess að hún hefur unnið til þess.


Þakklæti

Konan er þakklát.

Hún er þakklát fyrir allar erfiðu stundirnar því að það gerir góðu stundirnar svo dýrmætar.

Hún er þakklát fyrir fólkið í kringum sig, því að þau sem hafa ílengst í lífi hennar eru svo dýrmæt.

Hún er þakklát fyrir góðu heilsuna sína því að hún er ekki sjálfgefin.

Hún er þakklát fyrir sjálfsvígstilraunina því að hún leiddi konuna á rétta braut.

Hún þakklát fyrir fjölskylduna sína sem er henni dýrmætara en allt í heiminum.

Hún er þakklát fyrir hrósið sem hún fær.

Hún er þakklát fyrir kjarkinn því að hún gerði ekki margt án hans.

Hún er þakklát fyrir fyrir að eiga í sig og á, það er ekki sjálfgefið.

Hún er þakklát fyrir að geta deilt reynslu sinni því að það styrkir hana.

Hún er þakklát fyrir tárin, það gerir gleðina ennþá dýrmætari.

Hún er þakklát fyrir fortíðina sem gerir núið mikilvægara og framtíðina meira spennandi.

TAKK


Vonin

Konan hugsar mikið þessa dagana um vonina. Það er svo mikilvægt að eiga von, von um að ná bata, von um að lífið verði bjartara, von um framtíð, von um framtíð án áframhaldandi erfiðleika. Það er grundvallaratriði í bata hvers einstaklings að eiga von.

Einu sinni átti konan ekki von, hún hélt að hún  ætti alltaf eftir að verða döpur, sjá engan tilgang með lífinu og að fólkið hennar þyrfti að burðast með hana, einskis nýta, alla ævi.  Það var fjarri því að konan ætti vonarglætu, hún sá bara svatrnættið framundan. 

Þegar konan sá að hún var gríðarlega mikilvæg í augum fjölskyldunnar hennar kviknaði örlítill vonarneisti, kannski gæti hún mögulega átt kost á lífi sem væri ekki varðað vonleysi og depurð. Konan fékk hlúð að neistanum sem smám saman styrktist, oft jaðraði við að hann dæi út en hann lifnaði aftur eins og væri fyrir kraftaverk, kannski var það faðmlag eða hlý orð sem að olli því að neistinn lifnaði við. Vonin varð sterkari eftir því sem konan fékk meira sjálfstraust og vonin blés henni kraft í brjóst svo að konan náði markmiðum sínum.

Enn er vonin öllu mikilvægari í bata konunnar, með því að aðstoða fólkið sitt með að öðlast von, þora að vona á ný og efla vonina í brjóstum þeirra og þannig stuðla að bata þeirra, gefur konuninni enn meiri von um að hún geti haldið áfram að eflast í bata sínum.

 Vonin glæðir veikan þrótt

vonin kvíða hrindir.

Vonin hverja vökunótt

vonarneista kyndir.

Þessa vísu setti góð kona inn á vefinn og konunni finnst hún eiga mjög vel við. 


10.sept

Í tilefni þess að alþjóðlegur dagur sjálfsvígsforvarna var í gær og því að konan kom heim í nótt úr frábæru ferðalagi koma ýmsar hugsanir fram.

Hvað ef konunni hefði tekist að fremja sjálfsvíg fyrir 10 árum síðan, hversu mörgu hefði hún þá misst af? Hvernig liði fjölskyldunni sem stæði eftir með brotið hjarta?

Konan hefur fengið að upplifa þessi síðustu tíu ár á ótrúlegan hátt, það hefur gerst meira á þeim en hinum þrjátíu þar á undan, þó að þau séu jafnmikilvæg. Að geta staðið á fjallsbrún og horft yfir ægifagurt landslag, var mjög fjarri konunni fyrir um tíu árum þegar henni fannst hún vera byrði og til mikillar óþurftar og allir myndu græða á því að hún væri ekki lengur á meðal þeirra og allar áhyggjur þeirra hyrfu. Þvílík og önnur eins vitleysa hjá konunni, því að hún átti svo mikið sem hún kom ekki auga á og hafði svo mikið að gefa af sér þó að hún sæi algjörlega hið gagnstæða.

 Konan horfir yfir síðasta ár, því að það er fyrsta árið sem hún hefur unnið utan heimilis í mörg ár og hún hefur vaxið og dafnað í starfi sínu og hún veit að hún hjálpar einstaklingum sem leita til hennar.

Konan horfir á börnin sín, öll frábæra einstaklinga með sín sérkenni og hafa alla möguleika á að gera hvað sem þau vilja í framtíðinni og hugsar með sér að hún gæti hafa misst af þessari dásamlegu reynslu og er svo þakklát fyrir að fá að vera vitni af henni.

Síðastur en alls ekki sístur er kletturinn í lífi hennar, eiginmaðurinn, sem hefur gert það verkum að þetta er veruleikinn sem blasir við konunni og að hún getur horft fram á við með gleði og bjartsýni í huga og hjarta.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jóna Heiðdís Guðmundsdóttir
Jóna Heiðdís Guðmundsdóttir
Kona á fimmtugsaldri, nýútskrifaður Iðjuþjálfi með brennandi áhuga á öllu sem lýtur að geðheilsu.

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband