Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2015

Áskoranirnar í lífinu.

Konan stendur á tímamótum í lífi sínu og veltir fyrir sér hvernig og af hverju hlutirnir gerast.

Oft finnst konunni hún fái einfaldlega allt sem hún vill í fangið og þurfi ekkert að hafa fyrir því. Konan gerir oft mjög lítið úr þeirri vinnu sem hún hefur lagt óteljandi vinnustundir í að vera á þeim stað sem hún er núna.

Konunni hættir til að fá samviskubit yfir velgengni sinni, hvort sem það er í fjölskyldulífi eða faglegu lífi. Af hverju ætti hún að fá vinnu án þess að biðja beint um hana, af hverju eignast hún bakhjarla sem að standa fast við bakið á henni þegar verkefnin eru stór? Af hverju ætti konan að voga sér að koma með hugmyndir og framkvæma þær? Af hverju á hún svona dásamlegan eiginmann, sem á stundum heldur konan að hann sé sendur að ofan, bara til þess að gæta að konunni og elska hana án nokkurra skilyrða. Sama hvað það er sem konan gerir þá hefur hún þennan dásamlega lífsförunaut sem konan elskar meira en allt annað í heiminum og það sem er merkilegast að hlutirnar batna stöðugt eftir því sem árin líða.

Konan efast oft á tíðum að hún eigi þetta allt saman skilið, EN í dag ætlar konan að trúa því að hún eigi þetta allt skilið því að hún hefur lagt á sig gríðarlega mikla vinnu til að vera á þessum stað í lífinu.

Akkúrat í því augnabliki sem konan skrifar þetta er hún full skammar yfir því að hún ætli að birta þetta grobb/mont,  því að í hennar uppeldi var það talinn vondur siður. En samt birtir konan þetta því hún vill deila þessu jafn sem öðru sem hún hefur afrekað.


Þakklæti

konan er í útlöndum (þetta er ekki grobb) og hefur verið að hugsa um fyrri utanlandsferðir. Konan hefur misvel náð að njóta ferðanna vegna dapurlegs álits á sjálfri sér.

Konan þorði aldrei að prófa neitt, hún fylgdi bara straumnum, konan var alltaf á varðbergi gagnvart þeim heimskulegu hugmyndum sem hún gæti mögulega fengið og þannig ollið óþægindum fyrir aðra. Konan hugsar líka um ferðir þar sem hún gætti ekki orða sinna og var særandi en konan var svo föst í eigin sjálfsniðurrifi að hún áttaði sig ekki á framkomunni fyrr en löngu síðar og er enn að kveljast vegna þessara ummæla sem hún hefur látið falla þó að það megi hér um bil bóka það að það þeir sem urðu fyrir þessu ofbeldi séu búin að gleyma þessu.

Núna er allt annað upp á teningnum hún  skemmtir sér og er alls ekki upptekin af sjálfri sér og hætt að miða sig við aðra hvað varðar útlit og framkomu.

Konan er í félagsskap fólks sem tekur henni eins og hún er og vill ekki hafa hana neitt öðruvísi, þannig getur konan slakað á og púkakvikíndið er hvergi nálægt. Henni þykir gríðarlega vænt um fólkið og er full þakklætis yfir því að eiga þau að.

Konunni líður vel.


Höfundur

Jóna Heiðdís Guðmundsdóttir
Jóna Heiðdís Guðmundsdóttir
Kona á fimmtugsaldri, nýútskrifaður Iðjuþjálfi með brennandi áhuga á öllu sem lýtur að geðheilsu.

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband