Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2017

Nýtt ár , ný fyrirheit

Að eiga afmæli er það skemmtilegasta sem konan gerir, það þýðir ekki aðeins að hún hafi fengið eitt ár í viðbót til þess að láta drauma sína rætast,heldur fær hún að njóta samvista við fólkið sitt, fær ný tækifæri og heldur bjartsýn áfram á þær slóðir sem leiðir hennar hafa legið undanfarið  ár.

Konunni finnst nauðsynlegt að gera lista yfir allt sem hún þarf að gera, sérstaklega þegar allt er farið að hringsnúast í kollinum á henni og hún getur ekki einblínt á eitthvað eitt. Stundum inniheldur listinn húsverkin sem þarf að gera, hvað konan ætli sér að gera þann daginn, ef hún sé að fara að versla þá þarf hún miða til þess að muna það. Listar eru góðir til þess að muna eftir einu og öðru og stundum þyrfti konan lista yfir listana og um það að gleyma ekki innkaupalistanum heima!

Eitt ætlar konan að tileinka sér á nýja árinu, að nota ekki sjúkdóms eða greiningar lýsingaorð um fólk eða hluti samanber: „þetta eru geðveikar buxur, æ ég er með smá alsheimer light“ og uppáhaldið hennar: „Mótþróaþrjóskuröskun“. Konunni finnst vera ákveðið virðingarleysi að nota erfiðleika annarra sem lýsingarorð.  Tungumálið okkar er svo ríkt af fallegum orðin þannig að það ætti ekki að vera mjög erfitt að finna orð í staðinn. Eflaust eru margir ósammála um þetta en þetta er bara skoðun konunnar og hún endurspeglar á engan hátt skoðun þjóðarinnar ;) .

Annað ætlar konan að tileinka sér og telur að það sé mikil þörf á því en það er æðruleysi og taka þeim verkefnum sem til konunnar koma með gleði (fer auðvitað eftir eðli þeirra) og leysa þau af bestu getu.

Enn annað hefur konan ákveðið og það er að fara oftar í heimsóknir, konan er mjög ódugleg við það en hún fór í tvær heimsóknir fyrir jólin sem gáfu henni svo mikið og gefa enn. Svo að heimsóknir verða auknar á nýja árinu, svo að þeim sem fýsir ekki að fá konuna í heimsókn, setji rautt x athugsemdirnar við þessa færslu (en það er engin trygging samt fyrir því, því að konan er mjög gleymin, nema hún geri kannski lista yfir þá)

Eins og áður gefur nýja árið alltaf fyrirheit um meiri hreyfingu og hollara líferni, eins og áður verður það sjálfsagt upp og ofan og um þau mál best að hafa sem fæst orð því að þau bera minnsta ábyrgð.

En fastur hluti af konunni er að hún gerir allskonar vitleysur, hún segir alls konar vitleysur og það verður nokkuð örugglega engin breyting þar.

En gleðilegt ár kæru vinir og ef þið viljið fá upplýsingar um hvernig er best að búa til lista, sendið konunni þá línu. <3

 


Höfundur

Jóna Heiðdís Guðmundsdóttir
Jóna Heiðdís Guðmundsdóttir
Kona á fimmtugsaldri, nýútskrifaður Iðjuþjálfi með brennandi áhuga á öllu sem lýtur að geðheilsu.

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband