Bloggfærslur mánaðarins, september 2013

Vonin

Konan hugsar mikið þessa dagana um vonina. Það er svo mikilvægt að eiga von, von um að ná bata, von um að lífið verði bjartara, von um framtíð, von um framtíð án áframhaldandi erfiðleika. Það er grundvallaratriði í bata hvers einstaklings að eiga von.

Einu sinni átti konan ekki von, hún hélt að hún  ætti alltaf eftir að verða döpur, sjá engan tilgang með lífinu og að fólkið hennar þyrfti að burðast með hana, einskis nýta, alla ævi.  Það var fjarri því að konan ætti vonarglætu, hún sá bara svatrnættið framundan. 

Þegar konan sá að hún var gríðarlega mikilvæg í augum fjölskyldunnar hennar kviknaði örlítill vonarneisti, kannski gæti hún mögulega átt kost á lífi sem væri ekki varðað vonleysi og depurð. Konan fékk hlúð að neistanum sem smám saman styrktist, oft jaðraði við að hann dæi út en hann lifnaði aftur eins og væri fyrir kraftaverk, kannski var það faðmlag eða hlý orð sem að olli því að neistinn lifnaði við. Vonin varð sterkari eftir því sem konan fékk meira sjálfstraust og vonin blés henni kraft í brjóst svo að konan náði markmiðum sínum.

Enn er vonin öllu mikilvægari í bata konunnar, með því að aðstoða fólkið sitt með að öðlast von, þora að vona á ný og efla vonina í brjóstum þeirra og þannig stuðla að bata þeirra, gefur konuninni enn meiri von um að hún geti haldið áfram að eflast í bata sínum.

 Vonin glæðir veikan þrótt

vonin kvíða hrindir.

Vonin hverja vökunótt

vonarneista kyndir.

Þessa vísu setti góð kona inn á vefinn og konunni finnst hún eiga mjög vel við. 


10.sept

Í tilefni þess að alþjóðlegur dagur sjálfsvígsforvarna var í gær og því að konan kom heim í nótt úr frábæru ferðalagi koma ýmsar hugsanir fram.

Hvað ef konunni hefði tekist að fremja sjálfsvíg fyrir 10 árum síðan, hversu mörgu hefði hún þá misst af? Hvernig liði fjölskyldunni sem stæði eftir með brotið hjarta?

Konan hefur fengið að upplifa þessi síðustu tíu ár á ótrúlegan hátt, það hefur gerst meira á þeim en hinum þrjátíu þar á undan, þó að þau séu jafnmikilvæg. Að geta staðið á fjallsbrún og horft yfir ægifagurt landslag, var mjög fjarri konunni fyrir um tíu árum þegar henni fannst hún vera byrði og til mikillar óþurftar og allir myndu græða á því að hún væri ekki lengur á meðal þeirra og allar áhyggjur þeirra hyrfu. Þvílík og önnur eins vitleysa hjá konunni, því að hún átti svo mikið sem hún kom ekki auga á og hafði svo mikið að gefa af sér þó að hún sæi algjörlega hið gagnstæða.

 Konan horfir yfir síðasta ár, því að það er fyrsta árið sem hún hefur unnið utan heimilis í mörg ár og hún hefur vaxið og dafnað í starfi sínu og hún veit að hún hjálpar einstaklingum sem leita til hennar.

Konan horfir á börnin sín, öll frábæra einstaklinga með sín sérkenni og hafa alla möguleika á að gera hvað sem þau vilja í framtíðinni og hugsar með sér að hún gæti hafa misst af þessari dásamlegu reynslu og er svo þakklát fyrir að fá að vera vitni af henni.

Síðastur en alls ekki sístur er kletturinn í lífi hennar, eiginmaðurinn, sem hefur gert það verkum að þetta er veruleikinn sem blasir við konunni og að hún getur horft fram á við með gleði og bjartsýni í huga og hjarta.


Höfundur

Jóna Heiðdís Guðmundsdóttir
Jóna Heiðdís Guðmundsdóttir
Kona á fimmtugsaldri, nýútskrifaður Iðjuþjálfi með brennandi áhuga á öllu sem lýtur að geðheilsu.

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband