Að vera mannlegur

Konan hefur átt í smá baráttu við sjálfa sig undanfarið.Gengi konunnar hefur verið gott og henni tekist flest það sem hún hefur tekið sér fyrir hendur. Undanfarinn hálfan mánuð hefur konunni hins vegar fipast flugið með tilheyrandi vanlíðan og sjálfsvorkun. Eftir miklar hugsanaflækjur og vangaveltur er konan á því að þetta hafi verið gott fyrir konuna, hún fékk smá skell en rís sterkari upp, því konan hefur fundið mikinn og sterkan stuðning víðast hvar og veit að hún er að gera góða hluti. Konan varð líka að geta sett sig í spor þeirra sem ollu henni þessari vanlíðan og þau spor voru ansi þung og því hugsar konan til þeirra með mildi og kærleika.

Það er nú einu sinni svo að jafnvel þótt að konan meini vel þá misskilur fólk hana og hún misskilur aðra og stundum verður til einn stór misskilningur! Það er konunni mikið hjartans mál að geta nýtt reynslu sína og menntun til að hjálpa öðrum, sumum finnst hún vera hræsnari, stundum finnst konunni hún vera hræsnari vegna þess að hún er að setja sig upp á háan hest og þykjast geta gert allt á meðan hún skelfur eins og hrísla innra með sér. En kannski liggur styrkur konunnar þar, að geta haldið áfram þrátt fyrir óttann og kvíðan sem fylgir þvi að gera hlutina.

Það er svo auðvelt að dæma, dæma aðra, dæma sjálfan sig en hver segir að það sé endilega það gáfulegt? Tja nema maður sé í hópíþróttum eða glæpamaður og þá er yfirleitt dómarinn búinn að læra eitthvað  í þeim fræðum en er ekki með það markmið að rífa niður og finna að. Ekki einu sinni fá glæpamenn sömu meðferð og fólk beitir sjálft sig því að þeir eiga jú betrunarvist í vændum. En niðurrif og aðfinnslur eru ekki til betrunar.

Konan er dásamlega þakklát fyrir allan stuðninginn og líka fyrir aðfinnslurnar því að þetta gerir konuna sterkari og úr því að hún er ekki lögst á hliðina núna þá eru litlar líkur á að það gerist úr þessu a.m.k í þessari lotu. 


Hamingjan

Núna er konan í sjöunda himni, langþráður draumur hennar rættist í gær, Batasetur Suðurlands hóf starfsemi sína með því að hafa opið hús og það komu svo margir til þess að fræðast og ekki síst að veita konunni stuðning. 

Þetta hefur verið draumur frá því að konan fór að ná bata, hún vissi það að hún gæti hjálpað öðrum í svipaðri stöðu og nýtt reynslu sína svo að aðrir geti unnið að bata sínum. Það sem hefur einkennt þessa baráttu konunnar er stuðningur, frá eiginmanni og börnum, frá fagfolki, frá notendum, frá öllum sem hafa áhuga á bata og valdeflingu.

Konan hefur svo sannarlega þurft að taka á stóra sínum í mörgum tilfellum þvi að púkinn hefur reynt ansi oft að stökkva upp á öxlina en konan hefur náð að slá hann af í flestum tilfellum. Hann læðist stundum að konunni hægt og hljótt  með því að reyna að spyrja hana um hvað hún heldur eiginlega að hún sé, af hverju heldur hún að einhver hlusti á hana, af hverju í ósköpunum haldi hún að hún geti hjálpað? En konan svarar: af hverju ekki? Af hverju ætti hún ekki geta haft áhrif? er hún eitthvað minna virði en aðrir? Hún er búin að sigrast á ansi mörgu og þurft að berjast við marga djöfla til þess að vera komin á þann stað sem hún er á í dag.

Nú er bara að halda dampi og hlúa vel að þessum sprota svo að hann dafni vel og veri hægt að víkka út starfsemina í fleiri daga í viku svo að það sé hægt að þjóna þessum hópi sem best.

En takk allir fyrir hjálpina og kveðjurnar og hvatningarnar...knús og kossar


Trúðslæti

Það er töluverður tími síðan konan skrifaði síðast, það er ekki það að hafi ekki þruft að tjá sig, það var að konunni fannst hún ekki hafa leyfi til að skrifa það sem hún skrifar, það geti sært fólk sem stendur henni nærri. Jú, hún hefur verið mjög opinská og verið að hampa sjálfri sér að mati sumra en í raun er konan að skrifa fyrir sig, hún setur hugsanir sínar á blað og ákvað að birta þær ef einhver gæti haft gagn af þessum hugsunum, kannski vita að hann er ekki einn með allskonar skrýtnar hugsanir sem veltast um í kollinum. Þannig að konan hefur ákveðið að halda áfram að skrifa skrýtnu hugsanirnar sínar.

Það hefur eitt og annað drifið á dagana, svona eins og gengur. Konan hélt málþing um geðheilbrigðisþjónustu á suðurlandi sem heppnaðist gríðarlega vel og upp  úr því kom starfshópur sem vill vinna að því að bæta geðheilbrigðisþjónustu sunnlendinga. Konan hefur haldið fyrirlestra af ýmsu tagi og gengið vel. Konan hefur átt við slæmsku í mjöm vegna hás aldurs og konan er orðin stoltur hænsnabóndi. 

Konan hefur undanfarna daga tekið þátt í vinnu þar sem Patch Adams hefur verið í aðalhlutverki. Þegar konan heyrir hann segja allt sem hann hefur áorkað, í gegnum gleði og ást gagnvart öllum manneskjum í heiminum, þá dáist konan að honum og vildi gjarnan gera miklu meira en hún hefur gert. En konan hefur mikið nýtt sér húmor í starfi sínu og veit að hann hjálpar mikið í erfiðleikum en einnig þarf að vera til staðar samkennd og virðing  til þess að meðferð gangi upp en þetta er einungis örlítið sandkorn miðað við björgin sem Patch færir. 

Konan er ágæt þrátt fyrir að vera ekki með rautt trúðsnef.


Áskoranirnar í lífinu.

Konan stendur á tímamótum í lífi sínu og veltir fyrir sér hvernig og af hverju hlutirnir gerast.

Oft finnst konunni hún fái einfaldlega allt sem hún vill í fangið og þurfi ekkert að hafa fyrir því. Konan gerir oft mjög lítið úr þeirri vinnu sem hún hefur lagt óteljandi vinnustundir í að vera á þeim stað sem hún er núna.

Konunni hættir til að fá samviskubit yfir velgengni sinni, hvort sem það er í fjölskyldulífi eða faglegu lífi. Af hverju ætti hún að fá vinnu án þess að biðja beint um hana, af hverju eignast hún bakhjarla sem að standa fast við bakið á henni þegar verkefnin eru stór? Af hverju ætti konan að voga sér að koma með hugmyndir og framkvæma þær? Af hverju á hún svona dásamlegan eiginmann, sem á stundum heldur konan að hann sé sendur að ofan, bara til þess að gæta að konunni og elska hana án nokkurra skilyrða. Sama hvað það er sem konan gerir þá hefur hún þennan dásamlega lífsförunaut sem konan elskar meira en allt annað í heiminum og það sem er merkilegast að hlutirnar batna stöðugt eftir því sem árin líða.

Konan efast oft á tíðum að hún eigi þetta allt saman skilið, EN í dag ætlar konan að trúa því að hún eigi þetta allt skilið því að hún hefur lagt á sig gríðarlega mikla vinnu til að vera á þessum stað í lífinu.

Akkúrat í því augnabliki sem konan skrifar þetta er hún full skammar yfir því að hún ætli að birta þetta grobb/mont,  því að í hennar uppeldi var það talinn vondur siður. En samt birtir konan þetta því hún vill deila þessu jafn sem öðru sem hún hefur afrekað.


Þakklæti

konan er í útlöndum (þetta er ekki grobb) og hefur verið að hugsa um fyrri utanlandsferðir. Konan hefur misvel náð að njóta ferðanna vegna dapurlegs álits á sjálfri sér.

Konan þorði aldrei að prófa neitt, hún fylgdi bara straumnum, konan var alltaf á varðbergi gagnvart þeim heimskulegu hugmyndum sem hún gæti mögulega fengið og þannig ollið óþægindum fyrir aðra. Konan hugsar líka um ferðir þar sem hún gætti ekki orða sinna og var særandi en konan var svo föst í eigin sjálfsniðurrifi að hún áttaði sig ekki á framkomunni fyrr en löngu síðar og er enn að kveljast vegna þessara ummæla sem hún hefur látið falla þó að það megi hér um bil bóka það að það þeir sem urðu fyrir þessu ofbeldi séu búin að gleyma þessu.

Núna er allt annað upp á teningnum hún  skemmtir sér og er alls ekki upptekin af sjálfri sér og hætt að miða sig við aðra hvað varðar útlit og framkomu.

Konan er í félagsskap fólks sem tekur henni eins og hún er og vill ekki hafa hana neitt öðruvísi, þannig getur konan slakað á og púkakvikíndið er hvergi nálægt. Henni þykir gríðarlega vænt um fólkið og er full þakklætis yfir því að eiga þau að.

Konunni líður vel.


Áramót

Konan skoðar árið sem er að líða og hún hefur gert margt spennandi og skemmtilegt en allri gleði og hamingju fylgja erfiðir atburðir.

Konan hefur:

farið í frí (á hótel þar sem var blóm í klósettinu)

skellt sér á kaf í á í gönguferð út og suður (læk á það) 

eignast skíði (búin að fara þrisvar)

Farið til Bandaríkjanna í fyrsta skipti (allir frekar amerískir þar)

byrjað í vatnsleikfimi ( sem er bara dásamleg uppfinning)

Eignast fullt af nýjum og dásamlegum vinum (ríkidæmið er óendanlegt)

fengið að fylgjast með krafti og elju fólks í leiðinni að bata (fékk m.a. Boð í útskriftar veislu frá einni hetjunni)

Lokið námi í hugrænni atferlismeðferð

eignast þrjú lítil frændsystkini (ofsa fínt að fá að knúsa þau og skila þeim svo)

Stofnað Batasetur ( sem er reyndar hvorki fugl né fiskur enn sem komið er, en því verður breytt á nýju ári) 

búin að minnka vinnuna í Rvk niður í 20% (það verður örugglega töluvert rólegra í Hugarafli 80% af tímanum)

konan ætlar:

að finna sér vinnu á suðurlandi (er ekki einhver sem vantar eðal iðjuþjálfa í vinnu?)

Breyta mataræðinu (nauðsynlegt hvað varðar heilsuna og það væri ekki mikill söknuður af kílóunum sko!)

sinna fjölskyldu og vinum betur (hvort sem þeir vilja það eður ei)

hreyfa sig meira (kannski nota þrekhjólið sem hefur gefið upp alla von um að nokkur setjist á það)

fá sér hænur (soninn langar í geitur en þá verður hann bara að hafa þær hjá tengdó í Kópavogi)

Að láta ekki álit annarra hafa áhrif (konan er frábær hvað sem aðrir segja)

að breyta viðhorfi sunnlendinga (vonandi annarra í leiðinni) gagnvart fólki með geðsjúkdóma og ekki sist hjá þeim sem eru haldnir geðsjúkdómi (oft eru eigin fordómar verstir)

Gleðilegt ár kæru vinir og látum draumana rætast (látum aðra vita af draumunum því að það gerir allt svo miklu auðveldara)

knús og kossar 


Vefjagigtarpælingar

Konan er með vefjagigt eins og svo margir aðrir 

Vefjagigtin og konan eru ekkert séstakar vinkonur en konan hefur lært að bera virðingu fyrir henni.

Á morgnana þegar konan vaknar, er (ó)vinkonan búin að hreiðra vel um sig yfir nóttina með tilheyrandi verkjum og stirðleika og þá langar konunni bara ekkert á fætur. Reynslan hefur kennt konunni að hún megi ekki láta (ó)vinkonuna hafa yfirhöndina og konan snúsar aldrei því að hún veit að ef hún fer ekki framúr rúminu áður en líkaminn er alveg vaknaður er ekki víst að hún fari á fætur þann daginn.

Konan tekur verkjalyf og það er sífelld barátta að taka ekki of mikið til að deyfa sig gjörsamlega en það hjálpar alls ekki, gerir hlutina verri og því reynir konan að halda því í lágmarki.

Konan fer vikulega í sjúkraþjálfun því að það er nauðsynlegt að láta lina stirða vöðva og liðka festur sem myndast hér og þar með tilheyrandi verkjum. Það er yfirleitt frekar vont en þetta er það sem fleytir konunni yfir vikuna. 

Konan hefur einnig farið til hnykkjara og síðan hún byrjaði þar hefur hún ekki þurft að fá sterasprautur í vöðvafesturnar í hnakkanum. Konan er mjög fegin því að sprauta á þennan stað er gríðarlega sársaukafullt.

Konan hreyfir sig reglulega, er í vatnsleikfimi sem að hentar henni mjög vel því að álagið á líkamann verður minna í vatninu. Samt eru þetta hörkuæfingar og konan getur vel stjórnað ákefðinni með því að gera minna eða aðlaga æfingarnar að getunni þann daginn. Konan býr svo vel að eiga heitan pott og fer í hann á hverjum degi, nuddar auma bletti (mætti halda að konan væri haldin einhverri sjálfspíningarhvöt)og liggur í vel heitum pottinum svo að harðir hnútar leysist upp.

Svo finnst konunni að (ó)vinkonan nýti tækifærið ef að andlega hliðin sé veik og hamrar þá á allskonar óvelkomnum hugsunum eins og: " þú ert algjör aumingji" eða "þú verður alltaf með verki" og svo er þetta uppáhaldið: "þú munt aldrei losna við mig" 

Það eru svo margir í samfélaginu með vefjagigt og flestir reyna að halda í horfinu og gera sitt besta til þess að láta ekki vefjagigtina áhrif á daglegt líf.

Til er vefsíða: vefjagigt.is sem að konan fer oft inn á og tékkar á einkennalistanum ef að einhver ný vanlíðan skýtur upp kollinum og ef að þessi vanlíðan passar við eitt einkennanna þá þarf konan ekki endilega neitt að trufla læknana, heldur reynir að láta vinkonuna sleppa tökunum með þeim ráðum sem konan hefur.

Konan gerir alltaf sitt besta og það er ekki hægt að gera meira.


að vera fyrir

Konan óttaðist það mest að vera fyrir. Konan veit ekki hvaðan hún hefur það en þetta er ótti sem henni virðist hafa alltaf fylgt henni. En þessi tilfinning kemur þegar hún  fer í "gamlar" aðstæður, í eitthvað sem hún tók þátt í áður en hún náði bata. Konan er ótrúlega örugg í aðstæðum sem hún fer í eftir að hún náði bata, hún er sjálfsörugg og efast ekki um allt sem hún gerir, hún ber undir aðra vafamálin í stað þess að byrgja þau inni og vona að þau hverfi.

Konan hefur tekið eftir því að þegar hún fer á samkomur, vill hún helst sitja út í horni eða þar sem hún getur séð fólkið koma inn, þetta er einhver öryggisthegðun og konan ætlar að gera sitt best til að brjótast út úr þessari hegðun.

Núna ætlar konan að hugsa um það sem henni langar til án þess að vera alltaf að spá í hvað öðrum finnst, því að alltaf finnst einhver sem sem hefur skoðun á því.

Konan ætlar því að hætta að óttast það að vera fyrir sama hverjar aðstæðurnar eru.


hugsanahrærigrautur

Konan er að gera ýmsa hluti uppvið sig hvað varðar fortíðina.

Á hún að láta einhvern viðbjóðslegan karlfausk að hafa áhrif á allt hennar líf, allt til dauða? Þetta birtist mjög mikið í hugsunum um hversu mikið fífl konan sé, að hún sé hræðileg manneskja með á ekki tilverurétt. Konan tekur köst við að niðurlægja sjálfa sig og rifjar upp allskonar "glæpi" sem tengjast bernskunni, unglingsárunum og framundir þrítugt.  Þessir glæpir eru svo smávægilegir í annarra augum en kvelja konuna, ekki samt alltaf en æði oft. Konan segir stundum (lesist oft) einhverja bölvaða vitleysu sem hún sér svo eftir og þá situr hún eftir með samviskubit á stærð við Bárðarbungu.

En konunni hefur oft tekist að sitja á sér þegar viðkvæm mál eru annars vegar, t.d. varðandi fjölskylduna svo að þá má líta þannig á það að konan hefur þroskast því að konan hefur tekið meðvitaða ákvörðun um að láta það ekki hafa áhrif á sig.

En þessi mikla vanlíðan sem kemur fyrirvaralaust og svívirðingarnar sem konan lætur dynja á sjálfri sér myndi ekki nokkur maður þola henni.  Konan reynir að svara þessu með mótrökum en heilinn virðist ekki taka neinum rökum. 

Konan þarf ef til vill að skipta um sjónarhorn, vera besti vinur sjálfrar sín og haga sér samkvæmt því 


lengi lifir í gömlum glæðum...........

Konunni þykir gaman að fá gesti og býður mörgum í heimsókn. En gamli félagsfælnipúkinn hennar lætur alltaf á sér kræla áður en gestirnir koma, kvíðinn hríslast um hana og konunni langar helst að skella í lás og látast ekki vera heima.  En svo er svo frábærlega gaman þegar gestirnir koma og allt gengur svo vel.

Þetta bil á milli tilhlökkunnar og angistar er einhversskonar twilight zone, allar hugsanir konunnar sem fara um  huga hennar eru í það minnsta niðurbrjótandi og snúast um hversu konan er ómöguleg í alla staði, fólk sé bara svona aumingjagott að koma og heimsækja hana.

Í rauninni finnst konunni einstaklega skemmtilegt að fá gesti og hún er svo glöð að taka á móti góðum vinum og traktera þá á veitingum og gera sitt besta til að þeim líði sem best. Þegar gestirnir fara líður konunni þannig að hún sé svo rík af vinum og henni líður vel innra með sér og að hún sé ákaflega lánsöm að geta tekið á móti þeim á sem bestan hátt.

Konan ætlar að halda áfram a bjóða fólki í heimsókn því að hún nýtur þess að fá gesti, þrátt fyrir þetta augnablik félagsfælninnar veit konan að eftir því sem hún býður fleiri í heimsókn dregur út áhrifum hennar og þetta augnablik minnkar og styttist. 

Kannski ætti konan að bjóða félagsfælnipúkanum í heimsókn og bjóða hann velkomin en segja honum að hans sé ekki þörf lengur og kveðja hann síðan að eilífu, öfugt við þá gesti sem konan hefur fengið hingað til. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jóna Heiðdís Guðmundsdóttir
Jóna Heiðdís Guðmundsdóttir
Kona á fimmtugsaldri, nýútskrifaður Iðjuþjálfi með brennandi áhuga á öllu sem lýtur að geðheilsu.

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Af mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband