Gríman felld

Nú fellir konan grímuna og kemur fram rétt eins og hún er.

Eins og margir vina minna sem fylgjast með mér á facebook hafa séð baráttu mína við þunglyndi, kvíða og sjálfsvígshugsanir. Þessar síðustu vikur hafa þær allra dekkstu hugsanir leitað á hugann sem ég hef upplifað, ég hef stundað áhættuhegðun, t.d. ekki spennt á mig öryggisbeltið, skoðað loftin á ýmsum stöðum hvort að það væri nægilegt hald fyrir snöru, hef orðið mér úti um lyf sem mögulega hefðu látið hjarta mitt stöðvast. Mér varð ljóst þegar ég sat í jarðaför ömmu minnar hversu nálægt því ég var því að leggja það á fólkið mitt að sitja við mína jarðaför fyrir örfáum dögum síðan. Þarna í þessari fallegu athöfn hét ég mér því að mitt fólk þyrfti ekki að sitja við mína jarðaför fyrr en eftir amk 50 ár (ætla að vera jafngömul og amma). Þegar ég lofa einhverju þá stend ég við það, en ég get ekki lofað því að fá aldrei þunglyndisköst eða angistarkvíðaköst aftur því að þau eru sjúkdómurinn sem ég er með.  Ég geri mér líka grein fyrir því að ýmsum finnst þetta vera eintómt væl og ég sé að afla mér samúðar en það er ekki ástæðan, jafnvel þótt það sé mjög gott að fá hvatninguna og sjá umhyggjuna sem borin er fyrir mér. Ástæðan fyrir því að ég segi svona opinskátt frá líðan minni er að fólkið sem er í svipaðri stöðu finni að það er ekki eitt í heiminum og að þá má tala um þetta upphátt. Ég nota orðið geðveiki, því það er það sem það er. Ekki er neinn með sykurröskun, nýrnaröskun, höfuðröskun, ms röskun þannig að þá er geðröskun alveg jafn kjánalegt. Geðveiki er sjúkdómur rétt eins og sykursýki, nýrnasjúkdómur, migreni og ms sjúkdómurinn af hverju á að kalla þetta eitthvað annað?

Ef til vill eru þessi skrif mér ekki til framdráttar sem fagmanns, en ég er manneskja fyrst og fremst og get ekki tekið mig út úr jöfnunni persóna-fagmaður. Og ég er miklu betri í mínu fagi og minni vinnu því að ég legg mig alla í þetta. En svo verða allir veikir einhvern tíman og þá skiptir ekki máli hver sjúkdómurinn er.

Mörgum þykir eflaust erfitt að lesa þessi orð en af hverju á að þegja yfir þessum alvarlega sjúkdómi sem eyðileggur svo mörg líf og mannauð sem annars myndi nýtast í samfélaginu.

Ég hef barist fyrir því að halda úti þjónustu fyrir einstaklninga með geðveiki af einhverju tagi og því miður kláraði ég mig algjörlega við það svo að núna er ég í veikindaleyfi en þar sem enginn er ómissandi hittist fólkið mitt áfram þó að ég sé fjarverandi, þannig á þetta líka að virka. Ég held áfram að berjast fyrir þjónustu fyrir okkur sem eigum við geðveiki að stríða og við gætum gert margt svo gott í samfélaginu, aðeins ef við fengjum möguleika.

Geðveika konan sem er hún sjálf og ætlar að hætta þessu mali um sinn, þar til henni liggur fleira á hjarta.


Líkamleg og sálræn líðan

Jæja, þá  þarf konan að grípa til þess ráðs sem hjálpar henni mest þegar krísa er í gangi.

Undanfarnar vikur hefur álagið á konunni verið gríðarlega mikið en því er nú að linna. Þegar álagið verður of mikið kemur það ekki síður líkamlega út en á geðrænan hátt, jújú mikil ósköp konan verður mjög þung í skapi, kvíðir öllu og verður almenn fremur erfið en konan þekkir það vel enda búin að vera að kljást við það í tæp 40 ár. En annað er að renna upp fyrir konunni og það er hversu nátengd sálin er líkamlegri líðan og hefur hún nú verið að hugsa til baka, hefur þurft að hugsa dáldið lengi enda konan að nálgast hálfrar aldar afmælið 😉

Konan var ofsalega oft með hálsbólgu sem barn sérstaklega á sunnudögum því að á mánudögum var leikfimi  í skólanum og kveið konuna alltaf fyrir þeim tímum.  Þegar konan eltist bættist höfuðverkurinn við, konan alltaf með vöðvabólgu, allir verkir mögnuðust og á tímabili hélt konan að hún hlyti að vera með einhvern stórhættulegan sjúkdóm. Á unglingsárunum fer konan að stunda sjálfskaða til þess að finna sársaukanum innra með henni leið út.

Þegar konan varð fullorðin og innra með henni var þessi stóri svarti dreki sem stundum spjó eldi og eitri og gerði það að verkum að hún var stöðugt verkjuð og höfuðverkurinn var daglegur fylgifiskur og öll einkenni urðu að óyfirstíganlegum einkennum alvarlegra sjúkdóma.

Konan lá í rúminu dögum saman og grét, að hún hélt vegna höfuðverkjar en í rauninni var það depurðin sem hafði þar mest áhrif.

Þegar konan var ófrísk af fyrsta barninu þá fór hún sex sinnum inn á sjúkrahús vegna verkja sem var engin skýring var á, verkirnir voru jafn raunverulegir og að Trump er forseti BNA, kvalafullir og óútreiknanlegir. Konan vill leggja áherslu á að þetta er raunverulegt fyrir henni, sálvefrænir sjúkdómar eru til í raun og veru.

Jú mikil ósköp það er ýmislegt líkamlegt að konunni og það má ekki gera lítið úr því en sál og líkami eru svo nátengt að þetta hefur áhrif á hvort annað. Oft byrjar þetta með því að konan ofgerir sér á einhvern hátt likamlega t.d. að fara fram úr sjálfri sér í ræktinni sem skilar sér í verkjum sem magnar síðan kvíða eða þunglyndi sem magnar síðan aftur líkamlega verki, þetta verður að vítahring sem er svo erfitt að brjótast út úr.

Konan er búin að vera undir miklu álagi og ýmislegt verið í gangi sem hefur valdið henni depurð og kvíða og hún tók alltof mikið á því í ræktinni þannig að líkamlega hliðin var mjög slæm. Konan var mjög verkjuð og það skánaði ekki eftir því sem leið, því að kvíði og depurðin jukust líka og allskonar einkenni fóru að skjóta upp kollinum, fyrir utan þennan „venjulega“ höfuðverk voru líkamleg einkenni allstaðar.

Þegar álaginu linnti, varð konan aftur „stál“slegin eða bara svona venjulega verkjuð og lundin léttist og allt varð léttara.

Það var nú samt ekki svo að konan væri að gera sér upp þessi einkenni, þau voru alveg jafn raunveruleg og hjá öðrum, til dæmis tók konan þátt í að setja upp leikrit og þegar nær dróg frumsýningardegi fékk konan hálsbólgu og það enga smá hálsbólgu, það gróf í hálsinum og hún þurfti neyðaraðgerð til þess að taka hálskirtlana. En þetta sýnir að geðrænir sjúkdómar geta komið fram líkamlega, konan er með vefjagigt sem versnar í hvert sinn sem þunglyndið eða kvíðinn eykst.

Konan vonast til þess að geta betur tekist á við þessa vondu líðan með því að setja hana á blað, opna umræðuna og ef til vill hjálpa fleirum sem eiga við erfiðleika af þessu tagi að stríða.

p.s. konan gerir sér grein fyrir því að svona skrif hjálpa henni ekki faglega en á meðan það hjálpar einhverjum þá er það þess virði.


Litla gula hænan......................

Nú er konan komin heim eftir gott frí þar sem slakað var á í sólinni, etið og drukkið og notið góðs félagsskapar.

Og þegar heim er komið skoðar konan stöðu sína og hvað skuli gera næstu mánuði.

Konan fyllist bjartsýni með hækkandi sól og er svo viss um að allt gangi öllum, þeim sem  sem vilja vinna að því að bæta geðheilsu sína og hvers annars, í haginn með aukinni þátttöku í Batasetri Suðurlands, því að hópurinn sem er þar fyrir er svo sterkur og heilsteyptur og hefur svo mikið fram að færa.

Einnig hefur konan fengið svo mikla viðurkenningu á starfi Bataseturs frá svo mörgum félagasamtökum og einkaaðilum en á aðeins brot af þeirri viðurkenningu því batasetursfólkið á mestan þátt, án þeirra væri Batasetrið ekki til. Jafnframt er það eitt gleðilegasta sem konan gerir er að taka á móti styrkjum frá ýmsum félagasamtökum og einstaklingum sem af örlæti vilja styðja við starfsemina, það kemur ósjaldan út tárunum á konunni og yljar alveg inn að innstu hjartarótum.

Enn finnst konunni hún vera að leika tveimur skjöldum, hún þykist hafa eitthvað fram að færa og geta aðstoðað einstaklinga með geðraskanir en hún nær ekki að stjórna eigin kvíða, hvað er það eiginlega!! Það er líka svo fáránlegt að konan hugsar oft á dag, þegar kvíðinn er mikill, af hverju hættir hún ekki þessu bara! Og um leið og hún sleppir þeirri hugsun þá kemur önnur: En hver gerir það þá? Konunni var líkt við Litlu gulu hænuna að því leyti að hún gerir hlutina frekar en að bíða eftir því að einhver annar geri þetta, kannski er hún bara svona óþolandi stjórnsöm og vill bara fá að ráða þessu öllu en það er samt sem áður mikilvægt að aðrir geti stigið inn í og stutt við konuna í þessari vinnu. En á meðan hænan gerir flesta hluti þá fær hún líka að borða brauðið en vill gjarnan deila því með fleirum. Og á meðan hún fær brauð heldur hún áfram og áfram og áfram.......


Nýtt ár , ný fyrirheit

Að eiga afmæli er það skemmtilegasta sem konan gerir, það þýðir ekki aðeins að hún hafi fengið eitt ár í viðbót til þess að láta drauma sína rætast,heldur fær hún að njóta samvista við fólkið sitt, fær ný tækifæri og heldur bjartsýn áfram á þær slóðir sem leiðir hennar hafa legið undanfarið  ár.

Konunni finnst nauðsynlegt að gera lista yfir allt sem hún þarf að gera, sérstaklega þegar allt er farið að hringsnúast í kollinum á henni og hún getur ekki einblínt á eitthvað eitt. Stundum inniheldur listinn húsverkin sem þarf að gera, hvað konan ætli sér að gera þann daginn, ef hún sé að fara að versla þá þarf hún miða til þess að muna það. Listar eru góðir til þess að muna eftir einu og öðru og stundum þyrfti konan lista yfir listana og um það að gleyma ekki innkaupalistanum heima!

Eitt ætlar konan að tileinka sér á nýja árinu, að nota ekki sjúkdóms eða greiningar lýsingaorð um fólk eða hluti samanber: „þetta eru geðveikar buxur, æ ég er með smá alsheimer light“ og uppáhaldið hennar: „Mótþróaþrjóskuröskun“. Konunni finnst vera ákveðið virðingarleysi að nota erfiðleika annarra sem lýsingarorð.  Tungumálið okkar er svo ríkt af fallegum orðin þannig að það ætti ekki að vera mjög erfitt að finna orð í staðinn. Eflaust eru margir ósammála um þetta en þetta er bara skoðun konunnar og hún endurspeglar á engan hátt skoðun þjóðarinnar ;) .

Annað ætlar konan að tileinka sér og telur að það sé mikil þörf á því en það er æðruleysi og taka þeim verkefnum sem til konunnar koma með gleði (fer auðvitað eftir eðli þeirra) og leysa þau af bestu getu.

Enn annað hefur konan ákveðið og það er að fara oftar í heimsóknir, konan er mjög ódugleg við það en hún fór í tvær heimsóknir fyrir jólin sem gáfu henni svo mikið og gefa enn. Svo að heimsóknir verða auknar á nýja árinu, svo að þeim sem fýsir ekki að fá konuna í heimsókn, setji rautt x athugsemdirnar við þessa færslu (en það er engin trygging samt fyrir því, því að konan er mjög gleymin, nema hún geri kannski lista yfir þá)

Eins og áður gefur nýja árið alltaf fyrirheit um meiri hreyfingu og hollara líferni, eins og áður verður það sjálfsagt upp og ofan og um þau mál best að hafa sem fæst orð því að þau bera minnsta ábyrgð.

En fastur hluti af konunni er að hún gerir allskonar vitleysur, hún segir alls konar vitleysur og það verður nokkuð örugglega engin breyting þar.

En gleðilegt ár kæru vinir og ef þið viljið fá upplýsingar um hvernig er best að búa til lista, sendið konunni þá línu. <3

 


Hrós........

Stundum langar konuna til þess að fá hrós.. ekki það að hún fái ekki hrós og mikið af því,en stundum vill hún fá hrós frá ákveðnum aðilum sem virðast ekki geta gefið hrós eða vilja það ekki. Konan hefur alist upp við, eins og flestir íslendingar, að hrós sé hættulegt og alltof oft gefið og fólk verði montið af því að fá hrós og eigi það ekki skilið. Síðan er auðvitað eitt hvernig hrósinu er tekið, það er algengast að fólk geri lítið úr því og telji að hrósið sé aumingjagæska og að það eigi það ekki skilið. Konan er looooksins búin að læra að segja takk fyrir, þetta er fallega sagt og leyfa því að ylja hjartanu og auka sjálfsálitið (það má).  Því að þegar það er verið gera lítið úr þeim sem gefur hrósið og gefið í skyn að þeir viti nú bara ekkert í sinn haus.

Konan hrósar fólki þegar hún finnst að þeir verðskuldi það, hvort sem það sé þegar þau standa sig vel eða þau þurfa nú ekki vera meiri en að hrósa einhverjum fyrir það hversu fallegri peysu (konan er reyndar með lopapeysublæti) einstaklingurinn er í, svona hrós tekur ekkert frá konunni en viðtakandinn gæti orðið oggulítið glaðari og aukið birtuna í deginum hjá honum.

Konan hefur í lengri tíma meðvitað hrósað fólki því að hún hefur tekið eftir einhverjum jákvæðum eiginleikum í fari þeirra, konan hrósar ekki bara fyrir eitthvað s.s. vá rosalega heldur þú fallega á gafflinum þínum (nema þú eigir í einhverjum sérstökum erfiðleikum við það) eða rosalega smjattar þú dásamlega....(alls ekki þar sem konan fær hrukkur á heilann þegar hún heyrir smjatt).

Hrós skiptir máli, það gefur smá yl í hjartað og þaggar aðeins niður í púkanum á öxlinni ásamt því að viðtakanda gæti dottið í að láta það ganga (pay it forward) þannig að allir græða

Hrósum meira..........en bara ef við meinum það.


GET-ÆTLA-SKAL

Enn á ný hefur konan efasemdir um sjálfa sig og það sem hún er að gera, enn á ný rífur hún sig niður og segir ljóti hluti við sjálfa sig sem henni myndi aldei nokkurn tíma detta í hug að segja við aðra.

Konan vill meina að hún sé með mikilmennskubrjálæði, hvað heldur hún eiginlega að hún sé, að hún geti rekið virknimiðstöð, að hún geti búið til og haldið námskeið! Meira hvað hún lítur stórt á sig! Þetta er líklega gamili "félaginn" púkinn á öxlinni og hann fitnar hratt og vel þessa dagana og vill auðvitað fá að vera þar áfram þar sem hann fær nóg fóður.

Þetta er samt svo merkilegt, því að konan fær allstaðar jákvætt viðhorf og hrós en eins og áður hugsar hún sem svo: "Æ þau eru nú bara svo aumingjagóð"

Nú þarf konan að fara nota ráðin sem er svo auðvelt að gefa öðrum en töluvert erfiðara að nota sjálfur. Konan þarf að breyta hugsunarhættinum hjá sér og spyrja sig:

- myndi einhver nákominn segja þetta við hana sem hún segir við sjálfa sig?

- hvað væri það versta sem gæti gerst?

- er hægt að draga úr álaginu með því að fá fleiri með sér?

- það er enginn fullkominn og það gera allir mistök

- góðir hlutir gerast hægt

- þó að það komi bakslag þá er það allt í lagi, þú stendur bara upp og heldur áfram.

Nú ætlar konan að halda áfram að berjast fyrir Batasetrinu sínu, að koma námskeiðinu á framfæri (og klára vinnubókina fyrir 21.sept)

Það þarf bara smá skipulag og töluverða vinnu og þá ætti þetta að geta gengið.

Kannski best að líma "get ætla skal" innan á gleraugun og vona að þau síist inn fyrir 

 


Áskoranir lífsins

Nú er konan enn einu sinni að stíga all óþyrmilega út fyrir þægindahringinn sinn, enda er þessi hringur orðinn ansi máður á köflum, þar sem konunni finnst nauðsynlegt að ögra sjálfri sér á ýmsan hátt.

 

Konan skráði sig á námskeið sem væri í rauninni ekki í frásögur færandi nema fyrir það að það er haldið í Minneapolis í Ameríkunni. Konan fer aaaalein og verður þannig að standa gjörsamlega á eigin fótum og verður það í fyrsta skiptið á ævi konunnar sem hún fer ein til útlanda.

Það hlýtur að teljast til tíðinda að konan er ekki undirlögð af kvíða, jú jú það eru fiðrildi (ekki orðin að drápsgeitungum)í maga konunnar, hún vaknar svona upp úr fimm, sem er eiginlega eina merkið um að konan sé eitthvað kvíðin.

En konan hefur ferðast víða og er ferðavön, en alltaf hefur hennar betri helmingur séð um málin og konan hefur látið eftir sér þann lúxus að þurfa ekki að sjá um neitt. 

Svo er töluverð hætta falin í því að ef að þessi ferð gengur vel þá fylgi fleiri í kjölfarið, því að það er svo margt hægt að læra um allan heim. Nú hefur konan ofmetnast og lætur staðar numið og flýgur á vit ævintýranna (og kemur kannski aftur heim, nema hún týnist í Mall of America)


eitt og annað í huga konunnar.

Konan hélt ræðu, hátíðarræðu á 17.júní samkomu á Flúðum og talaði um sín innstu hjartans mál, geðveikina og sig. Konan hugsaði þegar hún var beðin um að flytja ræðuna um það hversu margir hafi verið beðnir um það á undan henni, það gæti ekki verið að konan hafi verið fyrsta val. Konan fékk mikið hrós fyrir ræðuna sína og margir þökkuðu henni fyrir og lagt var út af ræðunni hennar í messu og konan trúir því ekki að hún hafi haft svona mikil áhrif. En af hverju ætli þessar tilfinningar konunnar séu svona erfiðar, af hverju trúir hún því ekki að hún sé að gera góða hluti, af hverju trúir hún ekki á sjálfa sig, því að ef að hún gerir það ekki þá eiga aðrir væntanlega erfitt að gera það. Það er rótgróið í konuna að hún eigi ekki að vera ánægð með sjálfa sig og að hún sé ekkert merkileg. En konan hefur afrekað svo margt og það er löng leið frá því að geta ekki sótt barnið sitt í leikskóla sökum kvíða og félagsfælni til þess að fara á fund með „sérfræðingum“ hjá velferðarráðuneytinu og standa upp og halda ræðu í fjölmenni.

Konan á samt sem áður erfitt með að hringja í fólk, hún hefur stöðugt þá tilfinningu að hún sé fyrir að hún eigi ekki að taka pláss. Þegar konan þarf að standa fyrir einhverju fyrir sjálfa sig reynist henni það mjög erfitt, en fyrir aðra getur hún gert allt. Konan efast stöðugt um sjálfa sig, konan er viss um að einhvern tíman eigi hún eftir að klúðra hlutunum svakalega, konan er ekki manneskjan sem getur gert allt sem hún þarf að gera, það sé hún sem standi í vegi Batasetursins.

Samt er konan staðráðin í því að halda áfram baráttunni fyrir því að Batasetrið verði að einhverju stóru og miklu í þágu geðsjúkra á suðurlandi, hún er staðráðin í að geta unnið við hennar hjartans mál og er ákveðin í að vera betri í því og meðal annars að fara alein til USA til þess að fara á námskeið, eitthvað sem henni hefði nú ekki dottið í hug fyrir ári einu sinni. Það er einhver kraftur sem fyllir konuna eldmóði og fullvissu um að þetta sé einmitt það sem hún á að gera.  Án þess að prédika um einhvern æðri mátt þá fær konan einhverstaðar frá styrkinn sem hún þarfnast til þess að halda áfram og gera allt sem hún getur gert til þess að ryðja Batasetrinu leið.

Næata vekrefni hennar er að læra að taka það inn að hún er að gera stórkostlega hluti og það er ekkert sjálfgefið. (Núna langar konuna mest til þess að eyða þessum síðustu orðum, en ætlar ekki að gera það)


Þegar kvíðinn ræður för

Það er töluvert langt síðan konan hefur skrifað eitthvað hér inn, kannski sökum þess að hún hefur notað fésbókina meira til að tjá sig. En þau skrif eru ef til vill ekki eins frjálsleg og þau sem eru hér, þó að allir geti að sjálfsögðu lesið það sem hér stendur.

En síðan um áramótin hefur konan þjáðst af töluvert meiri kvíða en áður og hefur það komið henni mjög á óvart því hún hélt að hún væri „læknuð“ og hefur það haft mikil áhrif á lífsgæði hennar þar sem hún efast um allt sem hún gerir og hvernig hún gerir hlutina, hvað hún segir, hvernig hún lítur út, svona hafa púkarnir sér við hana.  En þessi kvíði kemur og fer og hefur sem betur fer ekki staldrað lengi við í einu þannig að konan fær tíma til að byggja sig upp á milli.

En konan hefur verið að halda fyrirlestra og kynningar á Batasetrinu og upplifun hennar á því hvernig henni hafi gengið fer alveg eftir því hvernig henni líður, rökrétt ekki satt? Hún flytur nákvæmlega sama fyrirlesturinn fyrir mjög svipaðan hóp, eftir annan fyrirlesturinn líður henni þannig að hún svífur út og heldur að hún geti sigrað heiminn og eftir hinn (meðan hún var í kvíðakastinu) finnst henni hún ömurleg og hafa ekkert við það að gera að vera í þessu starfi og þetta sé bara hræsni og vitleysa og öllum hafi leiðst meira er orð fá lýst.  

Konan er nú í starfi sem ögrar henni til þess að ná meiri og betri árangri, til þess að gera meira og stærra, konan hefur gríðarlegan metnað gagnvart starfinu sínu og er vakin og sofin yfir því að gera þetta sem best út garði, kvíðnn læðist með og hvíslar stöðugt í eyra hennar hversu vanhæf hún sé til þess að gera eitthvað svona, hún hafi bara ekkert í þetta starf að gera.

Umræðan undanfarið hefur mikið snúist um sjálfsvíg og sjálfsskaða og forvarnir gagnvart þeim, mjög þarft umræðuefni sem þarf að hamra stöðugt á.

Það flaug í hug konunnar um hvernig kvíðinn getur látið fólk gera ótrúlegustu hluti, konan fór fyrir mörgum árum á saumnámskeið til að sauma sér upphlut og leiðbeinandinn var þvílík dj..... gribba að konan átti alltaf erfiðara og erfiðara með að halda aftur af tárunum sökum kvíða og mikillar vanlíðunar og á endanum á leiðinni á námskeiðið ákveður konan að hún vilji ekki taka þátt í þessum hryllingi að hún ákveður meðvitað að keyra út af og slasa sig helst nógu mikið til þess að þurfa ekki að taka meiri þátt. Og hún gerir það en sem betur fer slasast hún ekki mikið og í rauninni hefði hún alveg getað klárað námskeiðið en finnur samt til eymsla og notar það sem afsökun. Konan hefur aldrei sagt frá þessu áður og alltaf skammast sín fyrir þetta. Í annað skipti tók líkaminn hreinlega sjálfur í taumana, konan ætlaði að taka þátt í leikriti hér í sveit og þegar styttist í frumsýningu magnast kvíðinn mikið og er að lokum orðinn óbærilegur en þá segir líkaminn stopp, konan fær svakalega hálsbólgu sem gerir það að verkum að hún er inn á sjúkrahúsi í nokkrar daga þar sem hún þurfti að fara í aðgerð.

Kvíði og depurð koma oft fram sem líkamleg einkenni, áður en konan viðurkenndi að hún væri með kvíða og þunglyndi, var hún ýmist með mikinn höfuðverk og lá í rúminu alla daga eða var með magaverk og lá í rúminu alla daga. En konan er með vefjagigt í dag með öllum þeim milljón einkennum sem henni fylgja en það er svo miklu auðveldara að eiga við hana þegar geðinu líður vel en magnast um leið og hallar undan fæti. Geðsjúkdómar eru ekkert síður líkamlegur sjúkdómur, því að það koma svo mörg líkamleg einkenni fram. Oft er sagt við fólk með geðraskanir að það eigi bara að fara út að ganga, taka vítamín og lýsi því að þá verði allt í lagi, jú það er rétt að í mörgum tilfellum hjálpar hreyfing við að viðhalda bata, flestir sem upplifa geðröskun af einhverju tagi hafa heyrt þetta og vita það en það getur verið gríðarlega erfitt að reima á sig skóna og koma sér af stað. Þegar skórnir eru komnir á og útidyrahurðin lokast þá tekur maður eitt skref og svo annað og fyrr en varir ertu farinn að ganga út um allt, en ganga er ekki eina hreyfingin, það er hægt að fara í sund, hjóla  og það er svo mikilvægt að finna eitthvað sem maður hefur gaman af því að annars endist maður ekki í því, konunni leiðist mjög mikið að ganga eða hjóla inni þannig að hún stundar sína hreyfingu í utandyra.

Nú er þessi pistill orðinn að minnsta kosti orðinn 10 númerum of stór en konan varð að koma þessu frá sér.

ps Upphluturinn var kláraður og konan ber hann með stolti ;)


Timamót

Konan hefur oft skrifað pistla um áramót og ætlar ekki að gera neina undantekningu á því þessi áramótin.

Söknuður og eftirsjá hafa verið ofarlega í huga konunnar um þessi jól, söknuður eftir þeim sem horfnir eru og eftirsjá og söknuður vegna sambanda sem hafa slitnað. Oft hefur hugur konunnar farið með hana í allskonar erfiðar og illviðráðanlegar hugsanarflækjur en konan reynir að leysa úr þessum flækjum á eins einfaldan hátt og henni er mögulegt.

Það er óhætt að segja að árið 2015 hafi verið ár breytinga hjá konunni,hún hefur látið drauma sína rætast á margan hátt en einnig hafa aðrir draumar brostið. Konan hefur haft óendanlegan styrk þegar að kemur að verkefninu um Batasetur, þrátt fyrir að stundum hafi blásið all rækilega á móti og hún verið við það að gefast upp en með góðum og öflugum stuðningi hefur allt gengið vel. Og hugur konunnar er farinn að skipuleggja framhaldið í von um að geta fjölgað dögunum og aukið enn við þjónustu við fólk sem vill vinna að bata sínum.

Konan hefur einnig verið að berjast við eigin vanmátt, þetta haust hefur verið henni erfitt þar sem félagsskapur þungþyndis og kvíða hefur oft náð yfirhöndinni, þetta hefur komið konunni óvart þar sem hún hélt að hún hefði stjórn á þessum félögum en kannski var það bara hroki að halda að þeir héldu sig fjarri þegar þessar miklu breytingar hafa dunið yfir á árinu.

En margar gleðilegar og dásamlegar stundir hafa átt sér stað, samvera með nánustu vinum og fjölskyldu, konan hefur kynnst og eignast marga dásamlega nýja vini, notið frábærra samverustunda með svo mörgum. Konan hefur hlegið og grátið og býst við að nýja árið muni bera í skauti sér bæði hlátur og grátur, gleði og sorg og söknuð en fyrst og fremst þakklæti til allra sem standa með konunni í öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur. 

Gleðilegt ár kæru vinir og njótið alls hins besta á nýja árinu.


Næsta síða »

Höfundur

Jóna Heiðdís Guðmundsdóttir
Jóna Heiðdís Guðmundsdóttir
Kona á fimmtugsaldri, nýútskrifaður Iðjuþjálfi með brennandi áhuga á öllu sem lýtur að geðheilsu.

Apríl 2024

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband