Bloggfærslur mánaðarins, október 2012

Lán og lukka

Konan er í dag að hugsa um hversu lánsöm hún er (counting her blessings). Þó að stundum komi yfir hana vonleysi, höfnunartilfinning og depurð þá er líf hennar fullt af fallegum og jákvæðum atburðum, fólki og hlutum. Konan upplifir að hún sé á heimavelli við það sem hún starfar og finnst það í rauninni ekki starf heldur sinnir hún sínu hjartans máli og fær borgað fyrir það!
Konan hefur unnið að þessari stund og að eignast þessa tilfinningu þar sem hún er svo örugg með sig og hefur fullvissu um að hún skipti máli og hún geti gert eitthvað til þess að aðstoða einstaklinga sem eru í sömu stöðu og hún var í.
Konan er í töluverðri sjálfsskoðun og lærir jafnmikið af skjólstæðingunum og hún gefur þeim, því að allir eiga einhver bjargráð sem þeir nota og það er ómetanlegt að geta deilt með einstaklingum í svipaðri stöðu.
Konan er endalaust þakklát fyrir að fá að gera það sem henni finnst skemmtilegast og mest áríðandi og hún er byrjuð að breyta heiminum, en það kemur í skrefum, einu í einu!

enn um samskipti..........

Konan var að velta fyrir sér samskiptum eða samskiptaleysi milli fólks sem endranær, hún steig erfið spor nýlega og var búin að mikla þetta gríðarlega fyrir sér og var ákveðin í því að henni yrði hent öfugri út og hún undirbjó sig undir þetta með þessar hugsanir svo að sporin voru þung. Konan steig þessi spor og þegar því var lokið sást varla í iljarnar á henni því að henni var svo létt.
Fólk (allavega konan) getur verið í þvílíkri einstefnu þannig að það sér ekkert nema sína leið og enginn annar ratar hana og aðrir eru á rangri leið. En konan þarf að breyta um stefnu og opna hugann fyrir sýn annarra. Þegar konan steig þessi skref var henni svo létt og hugsaði um það hversu langan tíma þetta hafi valdið henni vanlíðan. Þannig að konan ætlar að láta af langrækninni ( í flestum tilfellum) og mæta með opinn huga í samskipti sem gætu verið erfið.

þakkir

Konan fór í dag og sagði batasögu sína og fórst það ágætlega úr hendi, var henni sagt a.m.k. En þegar hún var að lesa áttaði hún sig á því að hún hefur svo marga í lífi sínu sem hafa hjálpað henni á þessari ferð og hefur ekki þakkað þeim almennilega fyrir sig. Þetta er eiginlega allt fólkið í kringum mig, bæði ættingjar og vinir, fólk sem hún hefur verið svo lánsöm að kynnast á þessum 9 árum sem eru liðin frá uppspyrnunni frá botninum. Konan er ákaflega þakklát fyrir allt sem þið hafið gert, eitt hrós, lítið bros, klapp á bakið skiptir miklu máli þegar einstaklingurinn sér ekkert jákvætt við sjálfan sig. Konan ætlar að endurgjalda öllum sem hafa á einhvern hátt hjálpað henni með því að láta það ganga áfram, hún ætlar að brosa, hrósa eða gefa klapp á bakið einhverjum öðrum einstakling sem er í sömu sporum og konan var í, um leið ætlar hún að skora á vini og vandamenn að gera slíkt hið sama.

Höfundur

Jóna Heiðdís Guðmundsdóttir
Jóna Heiðdís Guðmundsdóttir
Kona á fimmtugsaldri, nýútskrifaður Iðjuþjálfi með brennandi áhuga á öllu sem lýtur að geðheilsu.

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband