Bloggfærslur mánaðarins, desember 2014

Vefjagigtarpælingar

Konan er með vefjagigt eins og svo margir aðrir 

Vefjagigtin og konan eru ekkert séstakar vinkonur en konan hefur lært að bera virðingu fyrir henni.

Á morgnana þegar konan vaknar, er (ó)vinkonan búin að hreiðra vel um sig yfir nóttina með tilheyrandi verkjum og stirðleika og þá langar konunni bara ekkert á fætur. Reynslan hefur kennt konunni að hún megi ekki láta (ó)vinkonuna hafa yfirhöndina og konan snúsar aldrei því að hún veit að ef hún fer ekki framúr rúminu áður en líkaminn er alveg vaknaður er ekki víst að hún fari á fætur þann daginn.

Konan tekur verkjalyf og það er sífelld barátta að taka ekki of mikið til að deyfa sig gjörsamlega en það hjálpar alls ekki, gerir hlutina verri og því reynir konan að halda því í lágmarki.

Konan fer vikulega í sjúkraþjálfun því að það er nauðsynlegt að láta lina stirða vöðva og liðka festur sem myndast hér og þar með tilheyrandi verkjum. Það er yfirleitt frekar vont en þetta er það sem fleytir konunni yfir vikuna. 

Konan hefur einnig farið til hnykkjara og síðan hún byrjaði þar hefur hún ekki þurft að fá sterasprautur í vöðvafesturnar í hnakkanum. Konan er mjög fegin því að sprauta á þennan stað er gríðarlega sársaukafullt.

Konan hreyfir sig reglulega, er í vatnsleikfimi sem að hentar henni mjög vel því að álagið á líkamann verður minna í vatninu. Samt eru þetta hörkuæfingar og konan getur vel stjórnað ákefðinni með því að gera minna eða aðlaga æfingarnar að getunni þann daginn. Konan býr svo vel að eiga heitan pott og fer í hann á hverjum degi, nuddar auma bletti (mætti halda að konan væri haldin einhverri sjálfspíningarhvöt)og liggur í vel heitum pottinum svo að harðir hnútar leysist upp.

Svo finnst konunni að (ó)vinkonan nýti tækifærið ef að andlega hliðin sé veik og hamrar þá á allskonar óvelkomnum hugsunum eins og: " þú ert algjör aumingji" eða "þú verður alltaf með verki" og svo er þetta uppáhaldið: "þú munt aldrei losna við mig" 

Það eru svo margir í samfélaginu með vefjagigt og flestir reyna að halda í horfinu og gera sitt besta til þess að láta ekki vefjagigtina áhrif á daglegt líf.

Til er vefsíða: vefjagigt.is sem að konan fer oft inn á og tékkar á einkennalistanum ef að einhver ný vanlíðan skýtur upp kollinum og ef að þessi vanlíðan passar við eitt einkennanna þá þarf konan ekki endilega neitt að trufla læknana, heldur reynir að láta vinkonuna sleppa tökunum með þeim ráðum sem konan hefur.

Konan gerir alltaf sitt besta og það er ekki hægt að gera meira.


Höfundur

Jóna Heiðdís Guðmundsdóttir
Jóna Heiðdís Guðmundsdóttir
Kona á fimmtugsaldri, nýútskrifaður Iðjuþjálfi með brennandi áhuga á öllu sem lýtur að geðheilsu.

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband