Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2012

Hugsanabrengl!

Konan fór í frábæra gönguferð með frábærum göngufélögum. Allt gekk mjög vel fyrstu tvo dagana en síðasti dagurinn var talinn erfiður og fyrst um morguninn var þoka og rigning og ekki útlit fyrir að yrði gengið. Konan var alveg sátt við það en síðan fór að létta til og það var ákveðið að ganga. Þá fannst konunni hún myndi vera dragbítur og að hún ætti að fá far með trússbílnum og bíða eftir hópnum á áfangastað. Þetta kostaði nokkurn grát, aðallega vegna vonbrigða konunnar með að geta ekki lokið göngunni. Og í hvert sinn sem konan skoðar myndir frá þessari frábæru ferð fær hún alltaf á tilfinninguna að henni hafi mistekist, en hún gleymir hinum tveimur dögunum sem mistókust EKKI og voru frábærir. Þetta fer í taugarnar á konunni því að hún vill ekki hugsa svona, en það reynist mjög erfitt að breyta 40 ára hugsunarhætti. En í næstu gönguferð að ári ætlar konan að ganga alla dagana og klára með hinum. Konan er búin að skipuleggja æfingabúðir og ætlar að mæta fílefld til leiks að ári.

Minningar

Konan er í sumarfríi og hefur of mikinn tíma til að velta fyrir sér hlutunum, hugsa um liðna atburði og rifjar ýmislegt upp, bæði skemmtilega hluti (sem eru núna skemmtilegir) og hina sem hún ætlar ekki að eyða púðri á.
Einu sinni var konan að versla og á stóru heimili þarf að versla mikið. Konan fer með kerruna út og fer heim. Þegar konan er komin heim (á heima 40 km frá versluninni) opnar hún skottið á bílnum og ætlar að ná í vörurnar en það eru engar vörur! Þá hafði konan sest inn í bílinn án þess að setja vörurnar í skottið og farið heim. Nú voru góð ráð dýr en svo vel vildi til að eiginmaður konunnar var á ferðinni og gat farið að athugað hvort að konan hans hafi gleymt fullri innkaupakerru af vörum á bílastæði verslunarinnar (hefur örugglega notað einhverja góða afsökun fyrir gleymsku eiginkonunnar). Jú það hafði verið kerra full af vörum í reiðileysi á bílastæðinu og hafði hún verið tekin inn og gat maður konunnar þannig fengið vörurnar.
Í annað skipti var konan að sækja eldri dóttur sína á leikjanámskeið og sú yngri fékk að fara með. Konan fer og sækir stelpuna og fer svo inn í bíl og keyrir sem leið liggur heim EN uppgötvar að hún gleymdi yngri stelpunni! Konan fær algjört áfall og snýr við og fer og sækir stelpuna en sem betur fer voru fleiri mæður að sækja börnin sín þannig að yngsta stelpan var í góðum höndum, þar til mamman kom.
Svona minningar hafa nagað konuna í mörg ár, samviskubit yfir að hafa GLEYMT barninu sínu, að hafa gleymt vörunum og þannig mætti lengi telja. Í dag finnst konunni þetta frekar fyndið og nýtur yngsta dóttirin þess að minna mömmu sína á það þegar hún gleymdist. Konan sér að margar þessara minninga sem hafa nagað hana eru hreint út sagt sprenghlægilegar og með því að segja frá þessu og hlægja með öðrum að þessu hefur þau áhrif að samviskubitið minnkar og einni minningunni færra til að hafa samviskubit yfir.

Minningar

Konan hefur háð margar baráttur um ævina, flestar þeirra beinast að henni sjálfri, hennar takmörkunum og göllum. Konan hefur verið dugleg að brjóta sjálfa sig niður með slæmu umtali sem gerist í huga hennar og skilur eftir skömm og vanlíðan.
Oft á sér stað upprifjun á einhverjum atburði sem konan skammast sín fyrir, eitthvað sem öðrum er gleymt og grafið. Margar þessara upprifjana hafa í för með sér mikil óþægindi innra með konunni en einhvern vegin koma þessar minningar upp aftur og aftur, þær eru fáar þegar konunni líður vel en yfirtaka huga hennar þegar líðanin er verri.
Oft eru þetta minningar sem að skjóta upp kollinum, þar sem áfengi var haft við hönd, konan hefur sagt eitthvað í fljótfærni og fattaði löngu seinna hvað hún sagði, eða henni var bent á eitthvað sem hún sagði eða gerði á hlut annarrar manneskju. Konan hefur í flestöllum tilfellum viljað gjarnan snúa tímanum til baka og taka til baka það sem hún gerði eða sagði. En það reynist henni erfitt, því að margt af þessu fólki sem konunni finnst hún hafa gert illt er ekki hluti af lífi hennar lengur.
Konan er komin á þá niðurstöðu að leyfa þessum minningum að koma og tengja þær við „gamla“ lífið og skapa nýjar og góðar minningar í „nýja“ lífinu og flytja góðu og fallegu minningarnar með sér í það og skilja eftir minningarnar sem valda henni sársauka.
Ef til vill er það fáránlegt að biðjast afsökunar á einhverju sem er löngu liðið og í flestum tilfellum gleymt og grafið en til að friða sálina þarf konan að ákveða hvernig hún ætlar að nálgast þetta og með því að segja fyrirgefðu, ef hún hefur gert eitthvað á hlut þinn, verður að duga og ná yfir allar „syndir“ hennar. Fyrirgefðu.

samkomur

Konan var á samkomu um helgina, samkoma þessi er haldin á þriggja ára fresti. Þegar þessi samkoma var haldin í fyrsta skipti leið konunni illa og fannst hún vera mjög heimsk og vitlaus og átti engan vegin á nokkurn hátt samleið með öllu þessu fólki sem þekktist allt (je right!). Konan drakk á þessum tíma og náði þannig að blanda geði (þá kom mórallinn bara daginn eftir) en á seinni samkomum var konan hætt að drekka og þá var beinlínis kvöl og pína að „þurfa“ að hitta þetta fólk, jafnvel þó að það væri fólk innanum og samanvið sem konunni þykir ákaflega vænt um.
Nú um helgina var þessi kona hvergi sjáanleg, í stað hennar var komin kona sem tók þátt í þrautabraut í hoppukastala og kláraði brautina (án þess að setja nokkur met). Kona sem tjáði sig frjálslega, kona sem þáði hrósyrði með brosi og þessi kona talaði við mann sem talaði bara sænsku og þóttist skilja allt saman. Þessi kona var ekki að láta lítið fyrir sér fara, hún söng og trallaði og tók þátt í öllu. Og fékk engan móral daginn eftir..............

Samskipti

Í dag veltir konan fyrir sér ýmsum hlutum. Sem dæmi má nefna af hverju henni finnst hún örugg í samskiptum við fólk sem hún hefur kynnst á meðan náminu hefur staðið en hins vegar óörugg í samskiptum við fólk sem hún hefur umgengist frá blautu barnsbeini. Konan veltir fyrir sér hvort að fyrstu kynni skipti miklu máli og tilfinningar sem hafa komið upp í samskiptum eða líðan sem hefur átt sér stað á því tímabili gæti haft áhrif á öryggi hennar í ýmsum samskiptum á lífsleiðinni.
Til að skýra þetta betur þá væri hægt að segja að ef að einstaklingur sem hefur lágt sjálfsmat hittir einhvern sem er sjálfsöruggur og ef til vill stjórnsamur þá gæti einstaklingnum fundist sá aðili vera ógnandi og það eru fyrstu áhrifin sem einstaklingurinn fær af þessum aðila. Ekki það að sá sjálfsöruggi hafi ætlað að vera ógnandi eða stjórnsamur og gerir sér líklega enga grein fyrir því að sá sem er með lélegt sjálfsmat verði fyrir þessum áhrifum.
Konan hefur verið hrædd við fólk næstum allt sitt líf og finnst það því með ólíkindum hvað henni líður vel með fólki sem hún þekkti ekki fyrir fimm árum síðan. Konan finnur líka að hún er mun öruggari með sig í samskiptum við fólkið í umhverfi hennar, jafnvel þó hún verði að halda uppi samræðum við fólk, þá líður henni ekki illa því að nú hefur hún trú á því að hún hefur jafnmikið vægi og aðrir í samskiptunum.
Það er einnig mikilvægt fyrir konuna að vita að það er hún sem setur mörkin í samskiptum við aðra, hún getur dregið sig úr samskiptum ef henni ofbýður eða hún hafi hreinlega ekki áhuga á að eiga samskipti við einhvern.
Í dag segir konan NEI, ef hún vill ekki taka þátt í einhverju, hún segir JÁ ef að það er eitthvað sem vekur áhuga hennar eða að hún veit að hún hafi gott af því, jafnvel þótt að það geti reynt á, hvort sem er líkamlega eða andlega.

Sagan

Mig langar til þess að deila með ykkur sögu, þetta er saga af konu sem berst við þunglyndi og kvíða, er með félagsfælni og vefjagigt. Hún er óvinnufær og á þann draum heitastan að deyja, því að hún hefur ákveðið að það sé það besta sem hún geti gert í stöðunni, að það sé það besta sem hún geti gert fyrir eiginmann sinn og börnin sín, því að þau fá tækifæri til þess að byrja upp á nýtt án þess að þurfa að hafa konukvölina fyrir augunum sem er einskis nýt og öllum til ama. Dag einn ákveður hún að sá dagur sé kominn, hún tekur sterkustu verkjalyfin sín, skrifar smábréf til eiginmannsins og tölvupóst til bestu vinkonu sinnar, þar sem hún biður um fyrirgefningu því að hún geti ekki meir og það sé best fyrir alla að hún verði ekki lengur fyrir. Næsta sem konan veit er að hún er komin á sjúkrahús, var flutt þangað undir bláum ljósum og sírenuvæli. Vonbrigðin yfirtóku hana þegar hún vaknaði, vitandi það að þetta hafi hún ekki einu sinni gert þetta almennilega. Þegar hún sér eiginmann sinn bresta í grát yfir því að konan hans sé á lífi rennur upp fyrir henni ljós, hann elskar hana, með öllum hennar göllum. En konan sér enga kosti við sjálfa sig og er mjög hissa á því að maðurinn muni vilja eiga hana áfram.
Konan er flutt á geðdeild, þar sem hún fær herbergi sem er frekar nöturlegt, illa búið og ekki til þess að auka ánægju hennar. Hún fær viðtal hjá geðlækni, fer í greindarpróf og að öðru leyti er henni lítið sinnt. Þrátt fyrir það er þetta vendipunkturinn, botninum er náð og annað hvort liggur leiðin upp eða aftur í það helvíti sem býr í huga konunnar og óumflýjanlegar sjálfsvígstilraunir endurtaka sig. En á þessu augnabliki ákveður konan að berjast, hún ætlar að berjast fyrir því að endurheimta sjálfa sig og gera það sem hennar hugur stendur til, að fara í nám. Konan fer í fjarnám í nokkrum framhaldsskólafögum og henni gengur það vel, hún ákveður síðan að fara í framhaldsskóla með það markmið að útskrifast sem stúdent, í upphafi varð konan að hætta í fögum sem byggðust á hópavinnu því að það var henni um megn, að starfa með unglingum, sem hún hefur alltaf talið frekar hættulegt fólk.
Konan er hjá sálfræðingi sem kemur henni á félagsfælninámskeið, sem betur fer, því að hún átti í miklum erfiðleikum við að tjá sig við aðra, að eiga almennt í samskiptum við fólk, ekki bara ókunnugt fólk heldur fjölskylduna líka. Smátt og smátt fær hún styrk til þess að opna á samskipti við aðra, hún lærir með því að gera æfingar, að ekkert skelfilegt gerist þó að þú hendir úr hillum, spyrjir heimskulegra spurninga eða hagir þér á einhvern hátt öðruvísi en normið.
Konan lýkur stúdentsprófi og þá vaknar spurningin um hvað hún vilji gera, læra meira eða taka hlé? Þá er einmitt nám við hennar hæfi að byrja í fjarnámi og skráir hún sig í það. Með kvíðann í botni fer konan á nýnemadaga, þar sem hún nær ekki neinum tengslum við nokkra manneskju og skilur ekkert í því af hverju hún sé að gera sjálfri sér þetta. En með þrjóskuna að vopni heldur konan áfram og smátt og smátt kemst hún inn í hópinn, nær tökum á námsefninu og hefur sig áfram sem seiglunni. Í miðju náminu uppgötvar konan að hún er ekki lengur félagsfælin, hún hefur ekki tekið marga vikna þunglyndisköst og kvíðinn er minni en áður. Púkinn sem hefur setið á öxl hennar lætur allt í einu minna á sér kræla þó að það komi fyrir að hann sé hávær þá situr hann í styttri tíma og oftast getur konan yfirgnæft hann og þá lætur hann í minni pokann og hverfur.
Auðvitað eru oft erfiðir tímar, þegar námið er mjög krefjandi en konan á dásamlegan eiginmann sem styður hana með ráðum og dáð, vinkonu sem segir henni til syndanna og veitir henni allan þann stuðning sem konan þarf á að halda. Að auki á konan frábæra fjölskyldu sem styður hana í því sem hún gerir, hrósar henni og gerir allt sem í þeirra valdi stendur til þess að auðvelda henni lífið.
Í dag hefur konan lokið háskólanámi, komin með titil, sem verður settur fyrir aftan nafnið hennar í símaskránni.
Þessari konu finnst að hún hafi fengið allt upp í hendurnar, en hún veit líka að hún hefur þurft að takast á við margar hindranir til þess að allt mætti verða eins og það er í dag og barist við allskonar skrímsli og helst af öllu hefur hún þurft að berjast við sjálfa sig, við eigin niðurbrot og vantrú á getu.
Í dag er konan á hátindinum, stendur þar keik og sér til allra átta og finnst að ekkert sé ómögulegt. Hún veit líka að hún fær allan þann stuðning sem hún þarf til þess að framkvæma það sem henni dettur í hug því að hún á besta eiginmann í heimi og fjölskylda og vinir gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að draumar hennar rætist.

Höfundur

Jóna Heiðdís Guðmundsdóttir
Jóna Heiðdís Guðmundsdóttir
Kona á fimmtugsaldri, nýútskrifaður Iðjuþjálfi með brennandi áhuga á öllu sem lýtur að geðheilsu.

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband