Bloggfærslur mánaðarins, júní 2014

lengi lifir í gömlum glæðum...........

Konunni þykir gaman að fá gesti og býður mörgum í heimsókn. En gamli félagsfælnipúkinn hennar lætur alltaf á sér kræla áður en gestirnir koma, kvíðinn hríslast um hana og konunni langar helst að skella í lás og látast ekki vera heima.  En svo er svo frábærlega gaman þegar gestirnir koma og allt gengur svo vel.

Þetta bil á milli tilhlökkunnar og angistar er einhversskonar twilight zone, allar hugsanir konunnar sem fara um  huga hennar eru í það minnsta niðurbrjótandi og snúast um hversu konan er ómöguleg í alla staði, fólk sé bara svona aumingjagott að koma og heimsækja hana.

Í rauninni finnst konunni einstaklega skemmtilegt að fá gesti og hún er svo glöð að taka á móti góðum vinum og traktera þá á veitingum og gera sitt besta til að þeim líði sem best. Þegar gestirnir fara líður konunni þannig að hún sé svo rík af vinum og henni líður vel innra með sér og að hún sé ákaflega lánsöm að geta tekið á móti þeim á sem bestan hátt.

Konan ætlar að halda áfram a bjóða fólki í heimsókn því að hún nýtur þess að fá gesti, þrátt fyrir þetta augnablik félagsfælninnar veit konan að eftir því sem hún býður fleiri í heimsókn dregur út áhrifum hennar og þetta augnablik minnkar og styttist. 

Kannski ætti konan að bjóða félagsfælnipúkanum í heimsókn og bjóða hann velkomin en segja honum að hans sé ekki þörf lengur og kveðja hann síðan að eilífu, öfugt við þá gesti sem konan hefur fengið hingað til. 


samviskubitið eilífa

konan þáist af krónísku samviskubiti:

að vera með þunglyndi,

að vera kvíðin,

að vera of feit,

að borða of mikið,

að vera ekki nógu dugleg,

að vera erfið  og slæm móðir

að vera ekki nógu góð eiginkona,

að sinna mömmu sinni ekki nógu vel,

að sinna ömmu sinni ekki nógu vel,

að hringja ekki í allar frænkurnar,

að halda ekki nógu miklu sambandi við vinina,

að nenna ekki að þrífa bílinn,

að vera með vefjagigt

að vera ekki nógu skilningsrík

að vera of ákveðin

að vera ekki nógu ákveðin 

að segja nei

að segja ekki nei 

að þurfa á verkjalyfjum að halda

að þurfa á geðlyfjum að halda

að hreyfa sig ekki nóg 

að vera ekki nógu fagleg

að gefa of mikið af sér

að gefa ekki nógu mikið af sér

að segja já

að segja ekki já 

Þetta er allt sem hún hefur samviskubit yfir svona í núinu en hún hefur sko miklu meira samviskubit yfir fortíðinni:

að hafa drukkið of mikið áfengi,

að hafa sofið hjá of mörgum strákum,

að hafa logið einhvern tíman að einhverjum,

að hafa sagt eitthvað misgáfulegt,

að hafa ekki  valið alltaf réttu leiðina

að hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi

Oftast nær er samviskubit vita gagnlaust og gerir engum gott, en samviskubit getur nagað sálina í tugi ára þannig að úr blæðir. Samviskubit dregur mikið úr lífsgæðum og lífshamingju fólks og það væri óskandi að það væri hægt að fara í samviskubitsafnám, þá yrði lífið svo miklu einfaldara fyrir alla. Konan ákvað að setja saman þennan pistil þó að hún sé með samviskubit yfir því og ef til vill losnar eitthvað um samviskubitslista hennar.


Höfundur

Jóna Heiðdís Guðmundsdóttir
Jóna Heiðdís Guðmundsdóttir
Kona á fimmtugsaldri, nýútskrifaður Iðjuþjálfi með brennandi áhuga á öllu sem lýtur að geðheilsu.

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband