Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2013

Englarnir sem gleymast

Þessa dagana er konan djúpt hugsi. Hún hugsar til aðstandenda einstaklinga með geðraskanir, hvað býr í þeirra huga, hverjar eru væntingar þeirra, hvað óttast þeir og ekki síst hvaða hjálp eða aðstoð er í boði þeim til handa.

En fyrir skemmstu fékk konan vægt kast sem hafði í för með sér að hún vildi ekki hafa samband við nokkurn mann eða svara í síma; síminn hringir nokkuð oft og konan hunsar hann nokkuð lengi þar til hún gefst upp og svarar, þá er það eiginmaðurinn hennar að athuga með hana af því að hann hafði áhyggjur af henni. Þá rann það upp fyrir konunni að hún er ekki ein sem þjáist af þessum sjúkdómi, heldur að í hvert sinn sem konan er döpur þá fær eiginmaðurinn ef til vill endurlit frá því hann fann hana liggjandi í rúminu þeirra fyrir 10 árum. Konan skilur ekki í því hvernig hún hefur getað verið svo blind á líðan eiginmannsins, hún hefur haft skilning á því að þessi tímabil hafi  haft áhrif á fjölskylduna, jafnvel hundurinn hagar sér öðruvísi þegar þetta stendur yfir. En það hefur tekið konuna 10 ár að sjá hversu mikil áhrif þessi sjálfsvígstilraun hennar hefur haft og hvaða tilfinningar og minningar eru samhliða svipuðum aðstæðum, hjá besta eiginmanni í heimi, því að konan væri ekki hér ef að hans nyti ekki við.

Konan á 10 ára afmæli í haust, hún er búin að ákveða að halda upp á afmælið þann 10. október sem er alþjóðlegur dagur sjálfsvígsforvarna og konan ætlar að gera allt sem í hennar valdi stendur að þakka eiginmanni sínum fyrir ómetanlegan stuðning sl 10 ár og vonar að næstu 10 ár verði enn betri. Konan mælir með að allir sem eiga aðstandendur sem hafa staðið við bakið á þeim í blíðu og stríðu nýti tækifærið og þakki þeim fyrir allan stuðninginn, því að þau eru englarnir sem vilja gleymast!


Höfundur

Jóna Heiðdís Guðmundsdóttir
Jóna Heiðdís Guðmundsdóttir
Kona á fimmtugsaldri, nýútskrifaður Iðjuþjálfi með brennandi áhuga á öllu sem lýtur að geðheilsu.

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband