Líkamleg og sálræn líðan

Jæja, þá  þarf konan að grípa til þess ráðs sem hjálpar henni mest þegar krísa er í gangi.

Undanfarnar vikur hefur álagið á konunni verið gríðarlega mikið en því er nú að linna. Þegar álagið verður of mikið kemur það ekki síður líkamlega út en á geðrænan hátt, jújú mikil ósköp konan verður mjög þung í skapi, kvíðir öllu og verður almenn fremur erfið en konan þekkir það vel enda búin að vera að kljást við það í tæp 40 ár. En annað er að renna upp fyrir konunni og það er hversu nátengd sálin er líkamlegri líðan og hefur hún nú verið að hugsa til baka, hefur þurft að hugsa dáldið lengi enda konan að nálgast hálfrar aldar afmælið 😉

Konan var ofsalega oft með hálsbólgu sem barn sérstaklega á sunnudögum því að á mánudögum var leikfimi  í skólanum og kveið konuna alltaf fyrir þeim tímum.  Þegar konan eltist bættist höfuðverkurinn við, konan alltaf með vöðvabólgu, allir verkir mögnuðust og á tímabili hélt konan að hún hlyti að vera með einhvern stórhættulegan sjúkdóm. Á unglingsárunum fer konan að stunda sjálfskaða til þess að finna sársaukanum innra með henni leið út.

Þegar konan varð fullorðin og innra með henni var þessi stóri svarti dreki sem stundum spjó eldi og eitri og gerði það að verkum að hún var stöðugt verkjuð og höfuðverkurinn var daglegur fylgifiskur og öll einkenni urðu að óyfirstíganlegum einkennum alvarlegra sjúkdóma.

Konan lá í rúminu dögum saman og grét, að hún hélt vegna höfuðverkjar en í rauninni var það depurðin sem hafði þar mest áhrif.

Þegar konan var ófrísk af fyrsta barninu þá fór hún sex sinnum inn á sjúkrahús vegna verkja sem var engin skýring var á, verkirnir voru jafn raunverulegir og að Trump er forseti BNA, kvalafullir og óútreiknanlegir. Konan vill leggja áherslu á að þetta er raunverulegt fyrir henni, sálvefrænir sjúkdómar eru til í raun og veru.

Jú mikil ósköp það er ýmislegt líkamlegt að konunni og það má ekki gera lítið úr því en sál og líkami eru svo nátengt að þetta hefur áhrif á hvort annað. Oft byrjar þetta með því að konan ofgerir sér á einhvern hátt likamlega t.d. að fara fram úr sjálfri sér í ræktinni sem skilar sér í verkjum sem magnar síðan kvíða eða þunglyndi sem magnar síðan aftur líkamlega verki, þetta verður að vítahring sem er svo erfitt að brjótast út úr.

Konan er búin að vera undir miklu álagi og ýmislegt verið í gangi sem hefur valdið henni depurð og kvíða og hún tók alltof mikið á því í ræktinni þannig að líkamlega hliðin var mjög slæm. Konan var mjög verkjuð og það skánaði ekki eftir því sem leið, því að kvíði og depurðin jukust líka og allskonar einkenni fóru að skjóta upp kollinum, fyrir utan þennan „venjulega“ höfuðverk voru líkamleg einkenni allstaðar.

Þegar álaginu linnti, varð konan aftur „stál“slegin eða bara svona venjulega verkjuð og lundin léttist og allt varð léttara.

Það var nú samt ekki svo að konan væri að gera sér upp þessi einkenni, þau voru alveg jafn raunveruleg og hjá öðrum, til dæmis tók konan þátt í að setja upp leikrit og þegar nær dróg frumsýningardegi fékk konan hálsbólgu og það enga smá hálsbólgu, það gróf í hálsinum og hún þurfti neyðaraðgerð til þess að taka hálskirtlana. En þetta sýnir að geðrænir sjúkdómar geta komið fram líkamlega, konan er með vefjagigt sem versnar í hvert sinn sem þunglyndið eða kvíðinn eykst.

Konan vonast til þess að geta betur tekist á við þessa vondu líðan með því að setja hana á blað, opna umræðuna og ef til vill hjálpa fleirum sem eiga við erfiðleika af þessu tagi að stríða.

p.s. konan gerir sér grein fyrir því að svona skrif hjálpa henni ekki faglega en á meðan það hjálpar einhverjum þá er það þess virði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já líkamleg og sálræn heilsa er svo sannarlega samofin og á mun meiri og víðtækari hátt en margir gera sér grein fyrir.  Getur lesið meira um þetta t.d. í rannsókninni minni http://skemman.is/item/view/1946/1426;jsessionid=381AB60CD98D5F58078C0F5FDE816D6C

Gangi þér vel Jóna mín - þú ert að gera frábæra hluti

Dísa (IP-tala skráð) 15.4.2017 kl. 09:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóna Heiðdís Guðmundsdóttir
Jóna Heiðdís Guðmundsdóttir
Kona á fimmtugsaldri, nýútskrifaður Iðjuþjálfi með brennandi áhuga á öllu sem lýtur að geðheilsu.

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband