Gríman felld

Nú fellir konan grímuna og kemur fram rétt eins og hún er.

Eins og margir vina minna sem fylgjast með mér á facebook hafa séð baráttu mína við þunglyndi, kvíða og sjálfsvígshugsanir. Þessar síðustu vikur hafa þær allra dekkstu hugsanir leitað á hugann sem ég hef upplifað, ég hef stundað áhættuhegðun, t.d. ekki spennt á mig öryggisbeltið, skoðað loftin á ýmsum stöðum hvort að það væri nægilegt hald fyrir snöru, hef orðið mér úti um lyf sem mögulega hefðu látið hjarta mitt stöðvast. Mér varð ljóst þegar ég sat í jarðaför ömmu minnar hversu nálægt því ég var því að leggja það á fólkið mitt að sitja við mína jarðaför fyrir örfáum dögum síðan. Þarna í þessari fallegu athöfn hét ég mér því að mitt fólk þyrfti ekki að sitja við mína jarðaför fyrr en eftir amk 50 ár (ætla að vera jafngömul og amma). Þegar ég lofa einhverju þá stend ég við það, en ég get ekki lofað því að fá aldrei þunglyndisköst eða angistarkvíðaköst aftur því að þau eru sjúkdómurinn sem ég er með.  Ég geri mér líka grein fyrir því að ýmsum finnst þetta vera eintómt væl og ég sé að afla mér samúðar en það er ekki ástæðan, jafnvel þótt það sé mjög gott að fá hvatninguna og sjá umhyggjuna sem borin er fyrir mér. Ástæðan fyrir því að ég segi svona opinskátt frá líðan minni er að fólkið sem er í svipaðri stöðu finni að það er ekki eitt í heiminum og að þá má tala um þetta upphátt. Ég nota orðið geðveiki, því það er það sem það er. Ekki er neinn með sykurröskun, nýrnaröskun, höfuðröskun, ms röskun þannig að þá er geðröskun alveg jafn kjánalegt. Geðveiki er sjúkdómur rétt eins og sykursýki, nýrnasjúkdómur, migreni og ms sjúkdómurinn af hverju á að kalla þetta eitthvað annað?

Ef til vill eru þessi skrif mér ekki til framdráttar sem fagmanns, en ég er manneskja fyrst og fremst og get ekki tekið mig út úr jöfnunni persóna-fagmaður. Og ég er miklu betri í mínu fagi og minni vinnu því að ég legg mig alla í þetta. En svo verða allir veikir einhvern tíman og þá skiptir ekki máli hver sjúkdómurinn er.

Mörgum þykir eflaust erfitt að lesa þessi orð en af hverju á að þegja yfir þessum alvarlega sjúkdómi sem eyðileggur svo mörg líf og mannauð sem annars myndi nýtast í samfélaginu.

Ég hef barist fyrir því að halda úti þjónustu fyrir einstaklninga með geðveiki af einhverju tagi og því miður kláraði ég mig algjörlega við það svo að núna er ég í veikindaleyfi en þar sem enginn er ómissandi hittist fólkið mitt áfram þó að ég sé fjarverandi, þannig á þetta líka að virka. Ég held áfram að berjast fyrir þjónustu fyrir okkur sem eigum við geðveiki að stríða og við gætum gert margt svo gott í samfélaginu, aðeins ef við fengjum möguleika.

Geðveika konan sem er hún sjálf og ætlar að hætta þessu mali um sinn, þar til henni liggur fleira á hjarta.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóna Heiðdís Guðmundsdóttir
Jóna Heiðdís Guðmundsdóttir
Kona á fimmtugsaldri, nýútskrifaður Iðjuþjálfi með brennandi áhuga á öllu sem lýtur að geðheilsu.

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Af mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband