Sagan

Mig langar til þess að deila með ykkur sögu, þetta er saga af konu sem berst við þunglyndi og kvíða, er með félagsfælni og vefjagigt. Hún er óvinnufær og á þann draum heitastan að deyja, því að hún hefur ákveðið að það sé það besta sem hún geti gert í stöðunni, að það sé það besta sem hún geti gert fyrir eiginmann sinn og börnin sín, því að þau fá tækifæri til þess að byrja upp á nýtt án þess að þurfa að hafa konukvölina fyrir augunum sem er einskis nýt og öllum til ama. Dag einn ákveður hún að sá dagur sé kominn, hún tekur sterkustu verkjalyfin sín, skrifar smábréf til eiginmannsins og tölvupóst til bestu vinkonu sinnar, þar sem hún biður um fyrirgefningu því að hún geti ekki meir og það sé best fyrir alla að hún verði ekki lengur fyrir. Næsta sem konan veit er að hún er komin á sjúkrahús, var flutt þangað undir bláum ljósum og sírenuvæli. Vonbrigðin yfirtóku hana þegar hún vaknaði, vitandi það að þetta hafi hún ekki einu sinni gert þetta almennilega. Þegar hún sér eiginmann sinn bresta í grát yfir því að konan hans sé á lífi rennur upp fyrir henni ljós, hann elskar hana, með öllum hennar göllum. En konan sér enga kosti við sjálfa sig og er mjög hissa á því að maðurinn muni vilja eiga hana áfram.
Konan er flutt á geðdeild, þar sem hún fær herbergi sem er frekar nöturlegt, illa búið og ekki til þess að auka ánægju hennar. Hún fær viðtal hjá geðlækni, fer í greindarpróf og að öðru leyti er henni lítið sinnt. Þrátt fyrir það er þetta vendipunkturinn, botninum er náð og annað hvort liggur leiðin upp eða aftur í það helvíti sem býr í huga konunnar og óumflýjanlegar sjálfsvígstilraunir endurtaka sig. En á þessu augnabliki ákveður konan að berjast, hún ætlar að berjast fyrir því að endurheimta sjálfa sig og gera það sem hennar hugur stendur til, að fara í nám. Konan fer í fjarnám í nokkrum framhaldsskólafögum og henni gengur það vel, hún ákveður síðan að fara í framhaldsskóla með það markmið að útskrifast sem stúdent, í upphafi varð konan að hætta í fögum sem byggðust á hópavinnu því að það var henni um megn, að starfa með unglingum, sem hún hefur alltaf talið frekar hættulegt fólk.
Konan er hjá sálfræðingi sem kemur henni á félagsfælninámskeið, sem betur fer, því að hún átti í miklum erfiðleikum við að tjá sig við aðra, að eiga almennt í samskiptum við fólk, ekki bara ókunnugt fólk heldur fjölskylduna líka. Smátt og smátt fær hún styrk til þess að opna á samskipti við aðra, hún lærir með því að gera æfingar, að ekkert skelfilegt gerist þó að þú hendir úr hillum, spyrjir heimskulegra spurninga eða hagir þér á einhvern hátt öðruvísi en normið.
Konan lýkur stúdentsprófi og þá vaknar spurningin um hvað hún vilji gera, læra meira eða taka hlé? Þá er einmitt nám við hennar hæfi að byrja í fjarnámi og skráir hún sig í það. Með kvíðann í botni fer konan á nýnemadaga, þar sem hún nær ekki neinum tengslum við nokkra manneskju og skilur ekkert í því af hverju hún sé að gera sjálfri sér þetta. En með þrjóskuna að vopni heldur konan áfram og smátt og smátt kemst hún inn í hópinn, nær tökum á námsefninu og hefur sig áfram sem seiglunni. Í miðju náminu uppgötvar konan að hún er ekki lengur félagsfælin, hún hefur ekki tekið marga vikna þunglyndisköst og kvíðinn er minni en áður. Púkinn sem hefur setið á öxl hennar lætur allt í einu minna á sér kræla þó að það komi fyrir að hann sé hávær þá situr hann í styttri tíma og oftast getur konan yfirgnæft hann og þá lætur hann í minni pokann og hverfur.
Auðvitað eru oft erfiðir tímar, þegar námið er mjög krefjandi en konan á dásamlegan eiginmann sem styður hana með ráðum og dáð, vinkonu sem segir henni til syndanna og veitir henni allan þann stuðning sem konan þarf á að halda. Að auki á konan frábæra fjölskyldu sem styður hana í því sem hún gerir, hrósar henni og gerir allt sem í þeirra valdi stendur til þess að auðvelda henni lífið.
Í dag hefur konan lokið háskólanámi, komin með titil, sem verður settur fyrir aftan nafnið hennar í símaskránni.
Þessari konu finnst að hún hafi fengið allt upp í hendurnar, en hún veit líka að hún hefur þurft að takast á við margar hindranir til þess að allt mætti verða eins og það er í dag og barist við allskonar skrímsli og helst af öllu hefur hún þurft að berjast við sjálfa sig, við eigin niðurbrot og vantrú á getu.
Í dag er konan á hátindinum, stendur þar keik og sér til allra átta og finnst að ekkert sé ómögulegt. Hún veit líka að hún fær allan þann stuðning sem hún þarf til þess að framkvæma það sem henni dettur í hug því að hún á besta eiginmann í heimi og fjölskylda og vinir gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að draumar hennar rætist.

Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vá Jóna, hafði ekki hugmynd um þessa sögu þína. Man eftir því þegar þú komst fyrst norður til Lilju til að byrja í skólanum að mér fannst þú þvílíkt dugleg og mér finnst það sko enn og bara miklu miklu meir eftir að hafa lesið þetta :)

Haltu svona áfram, þú ert sko alveg með'etta :)

Freyja (hans Harðar) (IP-tala skráð) 2.7.2012 kl. 15:27

2 identicon

Þetta er svo sannarlega saga sterkrar konu sem hefur öðlast færni til að berjast við erfiðleikana og SIGRA :)

Til hamingju með þetta allt Jóna mín.  Þú átt vissulega framtíðina fyrir þér og ég er viss um að hún verður björt, þú nefnilega veist hvernig á að vinna að því að hún verði það :) 

Dísa (IP-tala skráð) 2.7.2012 kl. 17:38

3 identicon

Frábært hjá þér, til hamingju með þig : )

Alma Jenný (IP-tala skráð) 2.7.2012 kl. 18:26

4 identicon

Hef sagt það og segi enn...þú ert snillingur elsku Jóna og búin að standa þig svo vel:) getur svo vel allt það sem þig langar:) við erum heppin að eiga þig að:)

Fríður (IP-tala skráð) 4.7.2012 kl. 10:09

5 identicon

Elsku Jóna  takk fyrir að deila þessu með okkur því það eitt segir okkur mun meira um þig og hvað frábæru manneskju þú hefur að geyma , því það þarf engan smá kjark til að segja svona sögu af sjálfum sér.

Lilja Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 4.7.2012 kl. 11:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóna Heiðdís Guðmundsdóttir
Jóna Heiðdís Guðmundsdóttir
Kona á fimmtugsaldri, nýútskrifaður Iðjuþjálfi með brennandi áhuga á öllu sem lýtur að geðheilsu.

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband