Þegar kvíðinn ræður för

Það er töluvert langt síðan konan hefur skrifað eitthvað hér inn, kannski sökum þess að hún hefur notað fésbókina meira til að tjá sig. En þau skrif eru ef til vill ekki eins frjálsleg og þau sem eru hér, þó að allir geti að sjálfsögðu lesið það sem hér stendur.

En síðan um áramótin hefur konan þjáðst af töluvert meiri kvíða en áður og hefur það komið henni mjög á óvart því hún hélt að hún væri „læknuð“ og hefur það haft mikil áhrif á lífsgæði hennar þar sem hún efast um allt sem hún gerir og hvernig hún gerir hlutina, hvað hún segir, hvernig hún lítur út, svona hafa púkarnir sér við hana.  En þessi kvíði kemur og fer og hefur sem betur fer ekki staldrað lengi við í einu þannig að konan fær tíma til að byggja sig upp á milli.

En konan hefur verið að halda fyrirlestra og kynningar á Batasetrinu og upplifun hennar á því hvernig henni hafi gengið fer alveg eftir því hvernig henni líður, rökrétt ekki satt? Hún flytur nákvæmlega sama fyrirlesturinn fyrir mjög svipaðan hóp, eftir annan fyrirlesturinn líður henni þannig að hún svífur út og heldur að hún geti sigrað heiminn og eftir hinn (meðan hún var í kvíðakastinu) finnst henni hún ömurleg og hafa ekkert við það að gera að vera í þessu starfi og þetta sé bara hræsni og vitleysa og öllum hafi leiðst meira er orð fá lýst.  

Konan er nú í starfi sem ögrar henni til þess að ná meiri og betri árangri, til þess að gera meira og stærra, konan hefur gríðarlegan metnað gagnvart starfinu sínu og er vakin og sofin yfir því að gera þetta sem best út garði, kvíðnn læðist með og hvíslar stöðugt í eyra hennar hversu vanhæf hún sé til þess að gera eitthvað svona, hún hafi bara ekkert í þetta starf að gera.

Umræðan undanfarið hefur mikið snúist um sjálfsvíg og sjálfsskaða og forvarnir gagnvart þeim, mjög þarft umræðuefni sem þarf að hamra stöðugt á.

Það flaug í hug konunnar um hvernig kvíðinn getur látið fólk gera ótrúlegustu hluti, konan fór fyrir mörgum árum á saumnámskeið til að sauma sér upphlut og leiðbeinandinn var þvílík dj..... gribba að konan átti alltaf erfiðara og erfiðara með að halda aftur af tárunum sökum kvíða og mikillar vanlíðunar og á endanum á leiðinni á námskeiðið ákveður konan að hún vilji ekki taka þátt í þessum hryllingi að hún ákveður meðvitað að keyra út af og slasa sig helst nógu mikið til þess að þurfa ekki að taka meiri þátt. Og hún gerir það en sem betur fer slasast hún ekki mikið og í rauninni hefði hún alveg getað klárað námskeiðið en finnur samt til eymsla og notar það sem afsökun. Konan hefur aldrei sagt frá þessu áður og alltaf skammast sín fyrir þetta. Í annað skipti tók líkaminn hreinlega sjálfur í taumana, konan ætlaði að taka þátt í leikriti hér í sveit og þegar styttist í frumsýningu magnast kvíðinn mikið og er að lokum orðinn óbærilegur en þá segir líkaminn stopp, konan fær svakalega hálsbólgu sem gerir það að verkum að hún er inn á sjúkrahúsi í nokkrar daga þar sem hún þurfti að fara í aðgerð.

Kvíði og depurð koma oft fram sem líkamleg einkenni, áður en konan viðurkenndi að hún væri með kvíða og þunglyndi, var hún ýmist með mikinn höfuðverk og lá í rúminu alla daga eða var með magaverk og lá í rúminu alla daga. En konan er með vefjagigt í dag með öllum þeim milljón einkennum sem henni fylgja en það er svo miklu auðveldara að eiga við hana þegar geðinu líður vel en magnast um leið og hallar undan fæti. Geðsjúkdómar eru ekkert síður líkamlegur sjúkdómur, því að það koma svo mörg líkamleg einkenni fram. Oft er sagt við fólk með geðraskanir að það eigi bara að fara út að ganga, taka vítamín og lýsi því að þá verði allt í lagi, jú það er rétt að í mörgum tilfellum hjálpar hreyfing við að viðhalda bata, flestir sem upplifa geðröskun af einhverju tagi hafa heyrt þetta og vita það en það getur verið gríðarlega erfitt að reima á sig skóna og koma sér af stað. Þegar skórnir eru komnir á og útidyrahurðin lokast þá tekur maður eitt skref og svo annað og fyrr en varir ertu farinn að ganga út um allt, en ganga er ekki eina hreyfingin, það er hægt að fara í sund, hjóla  og það er svo mikilvægt að finna eitthvað sem maður hefur gaman af því að annars endist maður ekki í því, konunni leiðist mjög mikið að ganga eða hjóla inni þannig að hún stundar sína hreyfingu í utandyra.

Nú er þessi pistill orðinn að minnsta kosti orðinn 10 númerum of stór en konan varð að koma þessu frá sér.

ps Upphluturinn var kláraður og konan ber hann með stolti ;)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóna Heiðdís Guðmundsdóttir
Jóna Heiðdís Guðmundsdóttir
Kona á fimmtugsaldri, nýútskrifaður Iðjuþjálfi með brennandi áhuga á öllu sem lýtur að geðheilsu.

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband