Timamót

Konan hefur oft skrifað pistla um áramót og ætlar ekki að gera neina undantekningu á því þessi áramótin.

Söknuður og eftirsjá hafa verið ofarlega í huga konunnar um þessi jól, söknuður eftir þeim sem horfnir eru og eftirsjá og söknuður vegna sambanda sem hafa slitnað. Oft hefur hugur konunnar farið með hana í allskonar erfiðar og illviðráðanlegar hugsanarflækjur en konan reynir að leysa úr þessum flækjum á eins einfaldan hátt og henni er mögulegt.

Það er óhætt að segja að árið 2015 hafi verið ár breytinga hjá konunni,hún hefur látið drauma sína rætast á margan hátt en einnig hafa aðrir draumar brostið. Konan hefur haft óendanlegan styrk þegar að kemur að verkefninu um Batasetur, þrátt fyrir að stundum hafi blásið all rækilega á móti og hún verið við það að gefast upp en með góðum og öflugum stuðningi hefur allt gengið vel. Og hugur konunnar er farinn að skipuleggja framhaldið í von um að geta fjölgað dögunum og aukið enn við þjónustu við fólk sem vill vinna að bata sínum.

Konan hefur einnig verið að berjast við eigin vanmátt, þetta haust hefur verið henni erfitt þar sem félagsskapur þungþyndis og kvíða hefur oft náð yfirhöndinni, þetta hefur komið konunni óvart þar sem hún hélt að hún hefði stjórn á þessum félögum en kannski var það bara hroki að halda að þeir héldu sig fjarri þegar þessar miklu breytingar hafa dunið yfir á árinu.

En margar gleðilegar og dásamlegar stundir hafa átt sér stað, samvera með nánustu vinum og fjölskyldu, konan hefur kynnst og eignast marga dásamlega nýja vini, notið frábærra samverustunda með svo mörgum. Konan hefur hlegið og grátið og býst við að nýja árið muni bera í skauti sér bæði hlátur og grátur, gleði og sorg og söknuð en fyrst og fremst þakklæti til allra sem standa með konunni í öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur. 

Gleðilegt ár kæru vinir og njótið alls hins besta á nýja árinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóna Heiðdís Guðmundsdóttir
Jóna Heiðdís Guðmundsdóttir
Kona á fimmtugsaldri, nýútskrifaður Iðjuþjálfi með brennandi áhuga á öllu sem lýtur að geðheilsu.

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband